31.1.2007 | 14:55
Dagur 1 - Handbolti og blogg
Ég sór ákaflega kjánalegt heit í gær. Það var að ef íslenska landsliðið í handbolta stæði í Dönum þá myndi ég prufa að byrja að blogga. Og strákarnir okkar stóðu svo sannarlega í frændum vorum, þó munað hafi einu marki eftir framlengingu.
Þetta er allt mjög dularfullt þar sem ég er mjög mikill antisportisti og horfi aldrei á kappleiki af neinni sort. En í gær var fréttatíminn á RÚV látinn bíða þar til eftir leik og fátt um fína drætti á öðrum stöðvum. Ég skipti því yfir á RÚV þegar um 15 mín. voru eftir af fyrri hálfleik og hugðist sinna heimilsstörfum á meðan á leiknum stæði - en viti menn - ég sat bara pikkföst yfir leiknum til enda og fann hvernig blóðþrýstingurinn hækkaði stöðugt þar til yfir lauk. Þvílík spenna!
Ég veit ekki alveg hvað þetta er með Dani og mig. Ég á dóttur, danskan tengdason og barnabörn í Danmörku og finnst yndislegt að koma þangað. En það er alltaf eitthvað. Þegar Danir láta að því liggja að útrásarbarónarnir okkar séu óheiðarlegir þá móðgast ég. Og þegar þeir byrjuðu strax að hrósa sigri yfir leiknum í gær, áður en hann hafði verið leikinn, þá móðgaðist ég. Sennilega á þessi móðgunargirni mín við Dani sér djúpar rætur. Í fyrsta sinn sem ég heimsótti Kaupmannahöfn, þá á þrítugasaldi, hélt ég að það væri nú ekki mikið mál að tala við heimamenn, ég hafði jú eins og öll íslensk börn lært dönsku í skóla og fékk alltaf hátt í henni. Og las dönskuna reiprennandi. Í þessari fyrstu heimsókn minni komst ég hins vegar að því að ég gæti eins hafa verið að læra japönsku öll þessi ár því heimamenn þóttust ekki skilja orð af því sem ég sagði. Ef ég bað um "en pølse" var öskrað til baka "HVAD?" og ekki um annað að ræða en að tala ensku ef ég átti ekki að svelta heilu hungri. Þetta gengur svo sem betur í dag eftir áratuga æfingu en mér finnst þeir alltaf hrokafullir og reyna ekkert til að skilja, hvað þá að vanda sig við að tala.
Handbolti og blogg eiga svo sem ekkert sameiginlegt nema þegar annað þjónar hinu. Og ég get alveg lofað þeim sem þetta lesa að íþróttir verða ekki oft hér til umfjöllunar. Kannski aldrei aftur. Hvað annað verður bara að koma í ljós.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.