Bækur eru nauðsynjavara

Bóklestur er dópið mitt, ef ég á ekki eitthvað ólesið í húsinu er ég óróleg í sálinni og allt er ómögulegt. Ég les þó ekki mér né nokkrum öðrum til gagns, man stundum ekki hvað ég las í gær og ef ég er spurð hvort ég hafi lesið þessa bókina eða hina þarf ég helst að sjá hana og byrja á fyrsta kaflanum til að muna það. En það er sjaldgæft að ég lesi sömu bókina tvisvar, því það skemmtilegasta við lesturinn er að láta koma mér á óvart. Þó man ég eftir að hafa lesið Sjálfstætt fólk a.m.k. tvisvar.

Frá jólum hef ég meðal annars verið að lesa íslenskar glæpasögur. Kláraði það sem ég átti eftir af Arnaldi, Röddina, Mýrina og Kleifarvatn, Sá yðar sem syndlaus er eftir Ævar Örn, Þriðja táknið eftir Yrsu og var á byrja á Valkyrjum eftir Þráinn Bertelson.

Ævar Örn stóð ekki undir væntingum í þetta sinn, Arnaldur var jafn og ágætur þótt ég hafi verið orðin dálítið þunglynd eftir viku með Erlendi og Yrsa var þokkaleg en nokkuð fyrirsjáanleg. Mér fannst ég hafa lesið bókin áður einhverra hluta vegna. Nýja bókin hennar bíður á náttborðinu. Valkyrjur lofa góðu.

Svo kynntist ég nýjum höfundi, Sigurjóni Magnússyni, og hann kom sannarlega á óvart. Ég las í rykk þrjár af hans bókum, Hér hlustar aldrei neinn, Góða nótt Silja og þessa nýju, Gaddavír. Þetta eru myrkar sögur en skínandi vel skrifaðar. Mæli með þeim en þó ekki við þunglynda.

Mitt besta ráð til þeirra sem láta skammdegið fara í taugarnar á sér er að fara á bókasafnið og verða sér úti um eitthvað girnilegt, gamalt eða nýtt. Namminamminamm, eins og litla sonardóttir mín segir. Hún er bara rúmlega 16 mánaða og bækur eru strax orðnar hennar uppáhald. Hún mælir með Dodda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband