Vinátta

Ég er því miður frekar ódugleg við að rækta samböndin við vini mína. Er löt að fara út úr húsi þegar vinnu líkur og líður best heima um helgar þegar ég þarf ekki að vinna. Með bók í hendi, eins og fram hefur komið í færslunum hér að neðan. Þetta er ekki vegna þess að ég vilji ekki eða nenni ekki. Ég hef bara ekki hugsun á því.

En sem betur fer á ég svo góða vini að þeir láta hugsunarleysi mitt ekki aftra sér frá því að hafa samband við mig þegar þeim sýnist svo. Og fyrir það er ég þeim ævinlega þakklát. Því þegar ég hugsa um að ég gæti týnt þeim fyrir fullt og fast með sinnuleysi mínu fer virkilega um mig.

Ég velti þessu upp núna vegna þess að í gærkvöldi kom ein af mínum bestu vinkonum í heimsókn með manninn sinn með sér. Við höfðum þá ekki sést síðan í sumar þótt ekki sé langt á milli okkar. Þau hjónin höfðu verið að erindast í nágrenninu og bara datt svona í hug að athuga hvort ég væri heima. Þetta varð síðan yndisleg kvöldstund hjá okkur þremur.
Þegar þau kvöddu þakkaði ég þeim innilega fyrir komuna og bað um leið afsökunnar á að hafa ekki sjálf verið búin að hafa samband. Þá sagði þessi vinkona mín, sem er svo vel af guði gerð, að þau hjónin hefðu tekið um það meðvitaða ákvörðun að hafa sjálf samband við það fólk sem þeim þætti þess vert að halda sambandi við. Mér finnst þetta til fyrirmyndar og ætla að reyna að gera betur sjálf. Skammast mín satt að segja svolítið.

Ég hef reyndar ekki alltaf verið svona. Ég var mjög dugleg við að heimsækja þá sem ég taldi vini mína hér á árum áður. En ég verð að viðurkenna að á einhverjum tímapunkti hætti ég að fara eða hringja til þeirra sem ekki endurguldu heimsóknir mínar og símtöl. Taldi að það fólk vildi ekkert með mína vináttu gera. Sem er sennilega misskilningur ef dæma má út frá sjálfri mér í dag. En það er svo furðulegt að það verður erfiðara eftir því sem lengra líður að taka aftur upp þráðinn þar sem hann hefur slitnað. Og svo tekur sinnuleysið við, meira að segja gagnvart þeim sem síst eiga það skilið. Fuss og svei!

Takk fyrir komuna elsku Hrafnhildur mín.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband