Pyntingar til góðs?

Nýjum lífsstíl fylgir ýmislegt. Eins og til dæmis það að þegar svona sófakartafla eins og ég fer að stunda einhvers konar líkamsþjálfun kemur ýmislegt á óvart. Bæði það að þrátt fyrir stífar reykingar og lágmarks hreyfingu undanfarin ár er ég bara í þokkalegu formi. En líka það að æfingar, sem virðist svo ógnar auðvelt að gera þegar maður horfir á aðra, geta reynst hreinustu pyntingar þegar maður reynir að gera þær sjálfur.

Ég hélt að ég væri í frekar góðum málum þegar ég valdi að fara í jógaleikfimi en það kom á daginn að kennarinn er satisti af verstu gerð. Hún talar lágt og blíðlega um að fara með hendina hingað og fótinn þangað, snúa svo upp á hrygginn og halda stellingunni heila eilífð. Svo talar hún mjúkum rómi um að maður skuli senda ljós þangað sem tekur í - þegar maður á fullt í fangi með að halda jafnvægi og er að reyna að sýnast svellkaldur og klár er eitthvað ljóskjaftæði ekki alveg að virka.

En ég trúi því að þótt það sé vont þá geri það mér gott. Alveg eins og þegar ég var barn og þurfti að taka matskeið af lýsi á hverjum morgni sem ég ropaði svo upp til hádegis, það var svo óendanlega gott fyrir mig, sagði mamma. Hún sagði það líka á haustin þegar hún tróð mér í ullarbol sem mig klæjaði undan allan veturinn, hann varð að vera innst klæða annars virkaði galdurinn ekki. Ég trúði og píndist, kannski hef ég náð þessum háa aldri þess vegna?

Takk mamma mín.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband