13.4.2007 | 21:54
5 stig á línuna!
Ég er að fylgjast með norræna Evrovisjón-spekulasjóna-þættinum í sjónvarpinu og það er alveg dásamlegt að sjá alla gefa okkur (Eiríki Hauks) fimm stig. Auðvitað er ekki hægt að taka þetta alvarlega með manninn sem einn af dómurunum en þetta er ótrúlega skemmtilegt. Kannski væri hugmynd að einn flytjandi væri alltaf meðal dómara, til skiptis frá þáttökulöndunum?
Ég er búin að lesa nokkrar bækur síðan ég minntist á lestur síðast en hef svo sem ekki verið með neitt gullaldarefni í höndunum sem vert hefur verið að skrifa um. Þó má aðeins eyða orðum á Arf Nóbels eftir hina sænsku Lizu Marklund, hún var bara ágæt. Það er þó reyndar með ólíkindum hvað aðalpersónan, hún Annika Bengtzon, er látin ganga í gegnum. Hér er hún enn starfandi blaðamaður, gift og tveggja barna móðir, hjónabandið í rusli og hún að fara á taugum yfir ábyrgðinni sem fylgir því að eiga börn. Glæpakvenndi sögunnar brennir nýja húsið í úthverfinu ofan af henni og börnunum í sögulok. Hef á tilfinningunni að í næstu bók verði hún aftur flutt í miðbæinn.
Svo las ég Skipið eftir Stefán Mána. Ég varð fyrir vonbrigðum. Mér hefur fundist hann vera vaxandi höfundur - ekki það að Skipið sé illa skrifað, það er ekki málið. Ég átti bara ekki von á að Stefán Máni yrði Stephen King II
Bókin á náttborðinu er The Cold Moon eftir Jeffery Deaver, sú nýjasta í röðinni af sögunum um lögreglumanninn lamaða Lincoln Rhyme og hans fólk. Eitthvað af þessum sögum hafa verið kvikmyndaðar, margir kannast t.d við The Bone Collector þar sem hinn gullfallegi Denzel Washington leikur Rhyme. Ég skrifa meira um bókina þegar ég klára hana.
Athugasemdir
en þú söngkeppnisþáttaáhugakona! Horfðir þú þá ekki á Söngkeppni framhaldsskólanna? og ef svo er - hvað fannst þér?
Kv. Ninns
Gilitrutt (IP-tala skráð) 15.4.2007 kl. 21:50
Eiríkur ætlaði ekki að vilja vera þátttakandi í þættinum vegna þess að hann tekur þátt í sjálfri keppninni ... en var talaður til. Norðurlöndin hafa yfirleitt alltaf gefið hvert öðru rosa góða dóma og há stig, þetta var eiginlega engin undantekning.
Hafði líka gaman af Arfi Nóbels, gott að Annika er laus við karlinn, hann er næstum eins og eiginmaðurinn í Móðir í hjáverkum ... voða skilningsríkur ... en hjálpar umhverfinu samt við að lauma inn samviskubiti. Var mjög fúl út í þá bók. Einmitt vegna þessa, bókin endaði auðvitað á því að þessi helmingihærralaunaðaenmaðurinn hennar hætti að vinna úti ... en var svo byrjuð að dúlla við létt fyrirtæki heima fyrir, smá sárabót.
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 15.4.2007 kl. 21:58
Gilitrutt mín, ég var á frumsýningu í Hjáleigunni á laugardagskvöldið og sá ekki nema smá hluta af söngvakeppni framhaldsskólanna. Sá þó hann vin okkar úr skólanum, Pétur Ármannsson og fannst hann þrusugóður.
Gurrí, ég held að það taki enginn þennan norræna þátt mjög alvarlega, finnst að frekar sé litið á hann sem skemmtiefni og það er bara allt í lagi.
Það var nú ekki alveg ljóst í sögulok hvort Annika væri endanlega laus við þennan hundleiðinlega eiginmann sinn, hann gæti þess vegna dúkkað upp aftur í næstu bók. Ég var líka frekar fúl útí Móðir í hjáverkum, fannst hún á köflum óttalegt væl.
Vilborg Valgarðsdóttir, 16.4.2007 kl. 10:42
Takk fyrir hlý orð í minn garð Vibba mín
Það var nú líka okkar maður héðan frá Dalvík sem vann söngkeppnina, þú hefur nú séð hann leika fyrir okkur í skólanum, í óvissuferðum.
Júlíus Garðar Júlíusson, 16.4.2007 kl. 14:04
Júlli, ég hef aldrei farið í óvissuferð í skólanum Og ég missti af sigurlaginu í lokin þannig að ég veit ekkert hver þessi ungi hæfileikaríki söngvari er. En ég á örugglega eftir að sjá hann á næstunni. Og enn og aftur, þú varst flottur í gærkvöldi!
Vilborg Valgarðsdóttir, 16.4.2007 kl. 15:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.