Heilsan, svona almennt

Þegar heilsan er slæm er gott að geta farið til læknis. Ég er búin að reyna að ná sambandi við minn indæla heimilislækni vikum saman, en ég er farin að halda að líkurnar á því að fá tíma hjá honum séu álíka miklar og að vinna í lottóinu. Hvað er með þetta frábæra heilbrigðiskerfi hér á landi? Ég bjó í Bökkunum í Breiðholti frá 1990 til 2002 og fékk þar af leiðandi úthlutað heimilislækni í Mjóddinni. Man ekki eftir að það hafi verið neitt vesen að fá tíma þegar maður þurfti á því að halda, með sjálfa mig og slatta af krökkum sem veiktust eins og önnur börn á meðan ég bjó þar. Núna er það orðið þannig að þú þarft að byrja að hringja kl. 08.00 á föstudagsmorgnum til að panta tíma í vikunni á eftir. Síðasta föstudag komst ég að kl. 09.30 og var vinsamlegast bent á að það þýddi ekkert að hringja svona seint, allir tímar í næstu viku væru löngu fráteknir. Stefnir þetta ástand í að eina leiðin til að fá einhvern til að sinna heilsufarinu sé að verða svo veikur að kalla þurfi á sjúkrabíl og leggja þurfi mann inn á bráðamóttöku?

Ég tek það fram að ég er búin að fara á Læknavaktina. Þar er ekkert mál að fá viðtal við lækni og mér var ávísað á lyf sem entust í 2 vikur, ef ég væri ekki orðin góð eftir þann tíma átti ég að fara til heimilislæknis, hann er sá sem á að senda mann í nánari rannsóknir skv. kerfinu. Það gengur eins og að ofan segir.

Er kannski tími til kominn að biðja um nýjan heimilislækni, styttra frá núverandi heimili? Ég veit það ekki. Ég er alin upp á landsbyggðinni þar sem ég hafði sama heimilislækninn þau 26 ár sem ég bjó þar. Eftir á að hyggja var það ótrúlega þægilegt, aldrei þurfti að segja neina sögu oftar en einu sinni.

Líkamlegri vanheilsu má kenna um færsluna hér að ofan.

Andleg vanheilsa er í boði EYKTAR, verktakafyrirtækisins sem er búið að grafa allt í sundur fyrir framan húsið mitt við Höfðatún og heldur uppi linnulausum hávaða- og skítadreyfingarárásum á heimili mitt, hvort sem ég er í vinnu eða lasin heima. Mér var sagt að í helgarblöðunum hafi verið auglýst eftir verkamönnum til vinnu við byggingarsvæðið sem kallað er Höfðatorgsreiturinn - áætlaður vinnutími væri NÆSTU FIMM ÁRIN!!!!

Ég spyr, hafa borgarar þessa lands engan rétt! Má bara vaða svona yfir mann? 

Að lokum, ég átti átta vikna reykleysisafmæli í gær! Til hamingju Vibba mín, asskoti ertu dugleg! 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Loxins fann ég út úr því hvernig maður kommentar á bloggið þitt. (Hef svo sem ekkert legið yfir því, þar sem ég hef oftast getað kommentað við þig, beint.)

Til hamingju með átta vikurnar og ég vona að þér fari að batna svo þú getir farið út úr skítakófinu heima hjá þér og farið að koma hingað í hreina loftið í vinnunni.

Sigga Lára (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 09:19

2 identicon

Ég horfi yfir húsið þitt allan daginn og hugsa oft um það hvernig það sé hægt ð halda geðheilsunni við þessar aðstæður sem líkjast helst stríðsástandi. Mér heyrist að það sé orðið tæpt á því hjá þér.
Ég sendi mínar innilegust samúðarkveðjur og vona svo að heilsan fari að lagast.

Dísa (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 19:34

3 identicon

Þetta ástand er ógeðslegt heima hjá okkur. Það liggur við að manni langi bara ekkert heim á daginn eftir vinnu því að það bíður manni ekkert nema hávaði :-/

Láttu þér batna og til hamingju með reykleysið!

Linda (IP-tala skráð) 26.4.2007 kl. 11:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband