27.4.2007 | 22:50
Zyban, kostur og lestir
Vinir mínir hafa eflaust, eftir að hafa lesið síðustu færslur, haft af mér áhyggjur síðustu daga. Ég hef lýst slæmu heilsufari mínu og árangurslausri leit að heimilislækni. En nú stendur allt til bóta. Ég fékk mig skráða á lista ef einhver afpantaði tíma sinn hjá mínum góða lækni og sjá, ég fór til hennar í gærmorgun, snemma. Hún ákvað að slenið sem hefur ásótt mig skuli rannsakast með því að láta taka úr mér nokkrar flöskur af blóði og magaástandið skal metið með magaspeglun. Blóðprufurnar voru teknar í gær en speglunin verður gerð á mánudaginn. Það er ákveðinn léttir að eitthvað skuli vera að gerast og niðurstaðna fljótlega (vonandi) að vænta. Og þá kemur líka í ljós hvað þetta er mikið andlegt, hvað mikið líkamlegt og hvað mikið Zyban-inntöku að kenna.
Lyfið Zyban,sem ég hef tekið sem hjálparmeðal til að hætta reykingum, hefur haft sínar aukaverkanir. Þegar maður skoðar niðurstöður á doktor.is er listinn yfir mögulegar aukaverkanir ansi langur, liggur við að von sé á öllum skrattanum. Ég hugsaði mig mjög lengi um áður en ég ákvað dagsetningu til að hætta reykingunum og skoðaði listann yfir aukaverkanir Zybans vandlega. Ákvörðunin um að hætta með hjálp Zybans byggðist á eftirtöldu:
1. Úrskurði læknis frá 2005 um að byrjunareinkenna lungnaþembu væri orðið vart. Ég hafði margoft reynt að hætta en aldrei tekist að TAKA ÁKVÖRÐUNINA OG STANDA VIÐ HANA SMÁ STUND! Því það er bara það sem þarf, að byrja að hætta.
2. Endurteknum lungnasýkingum og lengri og lengri tíma til að ná mér upp úr þeim á síðasta ári. Þó tók steininn úr í nóvember, ég lagðist í rúmið þrisvar þann mánuðinn. Þá fór ég til heimilislæknis og bað um að verða send á Reykjalund en þar hafði ég heyrt að besti árangur á landinu hafi náðst við að gera fólk afhuga reykingum. Læknirinn minn brosti að vanþekkingu minni og sagði mér að aðeins þeir sem væru orðnir virkilega slæmir til heilsunnar kæmust þar að. En hún benti mér á Zybanið og sagði það hafa hjálpað mörgum. Það ku vera geðlyf, ætlað sem hjálp við þunglyndi, en reyndist ekki hafa aðrar verkanir á þunglyndissjúklinga en þær að þeir hættu smám saman allir að reykja. Ég fékk hjá henni lyfseðil ef ég ákvæði að nota það.
3. Ég hafði heyrt af reykinganámskeiðum (skrítið að kalla námskeið til að hætta reykingum "reykinganámskeið") Heilsustofnunarinnar í Hveragerði og kíkti á vefinn þeirra nfli.is. Þar kom í ljós að næstu námskeið hæfust sunnudaginn 25. febrúar 2007 og kostuðu 52.500 kr. Þar gæti maður treyst á leiðsögn í baráttunni ásamt því að vera á heilsufæði í heila viku og hafa allan aðgang að heilsurækt og mikla hvatningu til betra lífs eða nýs lífsstíls að minnsta kosti. Ég skráði mig strax í nóvember, greiddi staðfestingargjaldið og hóf hina andlegu aðlögun að þeirri ákvörðun að hætta þeim 39 ára gamla vana að reykja tóbak (2 pakka á dag síðustu 19 árin).
Ég ákvað að nota Zybanið og hóf inntöku þess þann 15. febrúar. Tók eina töflu á dag í 4 daga, eftir það 2 töflur á dag í 7 vikur, þá eina og hálfa töflu á dag í 1 viku og síðustu vikuna eina töflu annan hvern dag. Síðustu töfluna tók ég inn þann 19. apríl, eftir að hafa verið reyklaus í tvo mánuði.
Það erfiðasta hingað til var að koma sér inn á heilsuhælið, henda sígarettum og kveikjara og skella hurðinni. Ekkert síðan þá hefur í raun verið erfitt við að reykja ekki.
Fyrstu vikuna, í Hveragerði, leið mér oftast vel og var full af orku og löngun til að breyta sem flestu í mínu lífi, mataræði, hreyfingu og hugarfari. Reykingar voru liðin tíð. Það hvarflaði ekki að mér þar inni að ég myndi nokkurn tímann byrja á þeim andskota aftur.
Fljótlega fór ég samt að finna fyrir ýmsum óþægindum, sumum vafalaust af "eðlilegum" orsökun en öðrum af Zyban-notkuninni.
Til "eðlilegra" orsaka tel ég t.d.:
Hausverk, magaverk, doða, dofa, leiðindi, munnangur, svefnsýki, harðlífi, þunglyndi, svitaköst, kuldaköst og endalausa svengd.
Óþægindi sem skrifast á Zybanið tel ég vera, og takið eftir að þau eru oft og tíðum þau sömu og ég taldi upp hér að ofan:
Slen og sífeld syfja, svefntruflanir, munnþurrkur og almennur húðþurrkur, þunglyndi, grátgirni, versnandi einbeiting, áhugaleysi, hita- og kuldaköst, kláða, fótaóeyrð (já, hún er til í læknisfræðilegum skilningi) brenglað bragðskyn og ákaflega laskað skopskyn.
Kosturinn við að taka þetta ekkisens geðlyf er aðeins einn:
Mann langar ekki rassgat til að reykja!
En stundum, þegar veröldin er dökkgrá og leiðindin liggja yfir eins og rakt bútasaumsteppi með þykku tróði, þá hvarflar það að mér að fara bara að reykja aftur, það geti varla verið verra að drepast úr lungnaþembu en þessum leiðindum og líkamlegu óþægindum. Þá sé ég fyrir mér lífið, kannski í 5 ár í viðbót í mesta lagi, sitjandi í hjólastól með súrefniskút - og auðvitað byrja ég andskotann ekkert aftur. Þetta hlýtur að ganga yfir, bæði líkamlega og andlega.
Margir vinir mínir sem enn reykja hafa spurt hvernig mér hefur gengið, hér að ofan er svarið og ef það fælir einhvern frá því að nota þessa aðferð þá takið vel eftir:
Ég er enn reyklaus og það er það sem var lagt upp með !!!
Kannski líður manni betur líkamlega og andlega með einhverri annarri aðferð - en þetta er sú sem ég kaus. Njótið vel!
Athugasemdir
Áfram Vilborg! En bara hvað það er verst ef lækningin fer alveg með þig! Æ, nei þú kemst yfir þunglyndislyfið og verður sem ný og enn betri manneskja.
Viðar Eggertsson, 27.4.2007 kl. 23:05
Já, ég held þetta sé allt á góðri leið. Líðanin er betri í dag en í gær að mjög mörgu leiti, annað fólk hefur ótrúlega mikil áhrif, þá meina ég jákvæð - ef það t.d. segist vorkenna mér eða bara standa með mér
Þú getur þetta líka!!
Vilborg Valgarðsdóttir, 27.4.2007 kl. 23:17
Þessi athugasemd var ætluð þér Viddi minn. Þrymur, þú hefur gott af kaffi í sæmilega góðum skömmtum! Það bætir, hressir og kætir!
Vilborg Valgarðsdóttir, 27.4.2007 kl. 23:57
Mér finnst þú mikil hetja! Ég reyki hálfan pakka á dag og það er hvetjandi að lesa bloggið þitt.
Ég er svo skíthrædd við öll lyf (nema íbúfen) að ég held að ég þyrði ekki að taka Zyban. Þegar ég hætti í tvö ár einu sinni notaði ég plástur í smátíma og hann virkaði vel. Það tók mig samt 2-3 mánuði að ná mér líkamlega ... alls kyns aukaverkanir þótt ég tæki ekkert ... nema nammi. Gangi þér vel, duglega stelpa, ég mun feta í fótspor þín einn daginn!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 28.4.2007 kl. 01:17
... sko hvetjandi að hætta! Óskýrt orðað hjá mér, sorrí!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 28.4.2007 kl. 01:17
Nú er ég búinn að vera reyklaus í 14 mánuði, og ég notaði nikótín tyggjó og nikótín staut, í litlu mæli þó. Mesti munurinn sem ég fynn á mér er hvað það fer rosalega í taugarnar á mér þegar fólk reykir í kringum mig.
Áfram Vilborg.
Guðmundur L Þorvaldsson (IP-tala skráð) 28.4.2007 kl. 19:41
Til hamingju með áfangann ljúfan mín, ég er stolt af þér;-) Knús úr norðrinu!
Halla (IP-tala skráð) 30.4.2007 kl. 09:34
Vilborg mín, stefni á Náttúrulækningabælið í Hveragerði í nóvember, en þá verður þú að koma með mér! hehehe... og það verður án Zyban og annara lyfja. Ég vil verða uppdópaður af nærveru þinni, hugrekki og dugnaði!
Viðar Eggertsson, 30.4.2007 kl. 14:22
Kærar þakkir fyrir góðar óskir og falleg orð yndislegu bloggvinir.
Gurrí, þú lætur mig vita þegar þú hættir, ég skal styðja þig stanslaust!
Gummi, það er svo skrýtið að ég tek varla eftir því þó fólk reyki nálægt mér. Lyktin er auðvitað vond en ég reyni bara að færa mig Gó, Gummi, gó!
Viddi minn, ég kem með þér á heimsenda, þú hóar bara
Þrymur, ég hef aldrei heyrt minnst á þetta kaffi, Paulig. Er líka sólgin í kaffi sem bragð er að. Gaman væri að geta stolið smakki frá þér einhvern tímann
Vilborg Valgarðsdóttir, 30.4.2007 kl. 23:03
Ef manni langar meira að hætta að reykja en að halda áfram þá gengur þetta.
Skynsemi, heilsufar, lög og reglur skipta ekki máli, þetta er bara spurning um að langa nógu mikið. Hugheilar kveðjur
hrafnhildur (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 22:26
Einmitt!
Ásgeir Rúnar Helgason, 5.5.2007 kl. 21:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.