8.5.2007 | 23:09
Eins leiði annars gróði?
Ég og fjölskylda mín eigum sætt gamalt hús við mitt Höfðatúnið í Reykjavík. Við erum búin að eiga það síðan seint á árinu 2002. Við erum búin að vera að dunda við að gera það upp og laga að okkar þörfum og það verk er langt á veg komið. Á fallegum vordögum eins og í dag er hrein dásemd að setjast út á svalirnar að afloknum vinnudegi með dagblöðin og kaffibollann, halla sér letilega aftur í góðum stól og láta sólina verma fölbleikt vetrarskinnið.
Eða það hefur verið dásemd hingað til.
Í dag fann ég sprenginguna úr grunni Höfðatorgsins tilvonandi alla leið upp á Laugaveg og þegar ég kom heim var allt á tjá og tundri. Bob Marley (tveggja metra hár gíraffi frá Jamaica) hallaðist örvæntingarfullur upp að bókahillunni í stofunni, fallega blásaraveggklukkan mín frá Eistlandi hékk öfug á veggnum, allar myndir á veggjunum voru skakkar og hlutir í eldhúsinu verulega skakkir og skældir. Vatn lak úr ofninum í holinu og jafnvel inni á baðherbergi var ýmislegt úr skorðum. Rykið lá eins og þoka yfir húsi, svölum, garði, bíl og öllu nágrenninu. 15 metrum fyrir utan eldhúsgluggann voru 3 skurðgröfur að grafa og moka, skrapa klöppina, keyrandi fram og aftur, aftur og aftur og endalaust. Það er ekki hægt að opna glugga eða svaladyr vegna ryksins og hávaðans. Þegar gröfurnar voru enn að um áttaleytið gafst ég upp og flúði að heiman. Ég hreinlega þoldi ekki meir.
Hvernig á að vera hægt að búa við þetta í allt sumar, en það er tíminn sem þeir gefa sér bara í götuna? Svo maður tali hvorki né hugsi lengra fram í tímann
Athugasemdir
Og núna er ég heima með ömmubarnið þitt og ég er að hugsa um að flýja. Þvílíkur hávaði! Og ekki viljum við vera hérna þegar þeir sprengja kl.15.45
Þetta er óþolandi. Ég legg til að við stelpurnar flytjum til heitari landa í sumar. Atvinnuveitendur okkar hljóta að styðja það með áframhaldandi launagreiðslum út sumartímann. Verðum bara extra duglegar í vetur með allri uppsafnaðri orkunni.
Linda (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 14:27
Og núna er ég heima með ömmubarnið þitt og ég er að hugsa um að flýja. Þvílíkur hávaði! Og ekki viljum við vera hérna þegar þeir sprengja kl.15.45
Þetta er óþolandi. Ég legg til að við stelpurnar flytjum til heitari landa í sumar. Atvinnuveitendur okkar hljóta að styðja það með áframhaldandi launagreiðslum út sumartímann. Verðum bara extra duglegar í vetur með allri uppsafnaðri orkunni.
Linda (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 14:40
Já Guðmundur, það læðist stundum að mér grunur um samvinnu verktakans við þann í neðra
Linda mín, við verðum bara að tjalda í Laugardalnum í sumar ef við viljum frið og ró
Vilborg Valgarðsdóttir, 9.5.2007 kl. 15:10
Og ef mig misminnir mig ekki var G. Pétur að tala um að sprengingarnar hefðu ekki einu sinni verið almennilega kynntar. Fáir græða, margir gjalda, það er segin saga.
Berglind Steinsdóttir, 9.5.2007 kl. 21:52
Vilborg mín, bjóddu Hönnu Birnu borgarfulltrúa í heimsókn - og neyddu hana til að sitja í stofunni og rykfalla meðan sprengingarnar æra hana!
Hún hlýtur að þurfa að fara í vettvangskönnun konan.
Slepptu henni ekki útaf heimilinu þínu fyrr en hún játar sig sigraða.
baráttukveðja
Viðar Eggertsson, 9.5.2007 kl. 23:14
Heyrðu...komdu bara austur í bústað í sumar...hressir bætir kætir:)
Þráinn (IP-tala skráð) 10.5.2007 kl. 13:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.