Saga úr daglega lífinu

Ég stóð í biðröðinni við pylsuvagninn í Tryggvagötu. Hafði fengið mér göngutúr niður Laugaveginn í sólskininu og endað í norðanrokinu þar niðurfrá. Fyrir framan mig stóðu tvær þýskar konur á miðjum aldri sem virtu vandlega fyrir sér íslenskan þúsundkall. Þær bentu á seðilinn og hlógu, ekki veit ég að hverju. Skyndilega vekur athygli mína mannvera á kafi í annarri ruslatunnunni sem stendur vestanmegin við pylsuvagninn. Ég velti fyrir mér hvort þetta væri ein af þessum manneskjum sem virðast lifa á því að safna flöskum og dósum á götum borgarinnar, en nokkrar þeirra eru fastagestir í ruslatunnunum aftan við vinnustaðinn minn.

En ekki alveg og gettu aftur húsfreyja.

Þegar mannveran reisti sig upp úr tunnunni sá ég að þetta var fullorðin kona, sennilega á sjötugsaldri. Það var reyndar erfitt að gera sér grein fyrir aldri hennar þar sem hún var svo skítug að varla sá í hreinan blett. Hárið var stálgrátt, millisítt og kleprað af skít. Hún var klædd dökkum buxum og jakka og hafði eina fimm plastpoka meðferðis, jafn skítuga og hún var sjálf. Greinilega útigangsmanneskja.

En hún var ekki að safna flöskum enda afgreiðir pylsuvagninn gosið bara út í pappaglösum og líklega lítið að hafa í þeirra ruslatunnum. Þessi kona var bara líka að fá sér hádegismat eins og aðrir gestir vagnsins - en hún ætlaði bara ekki að borga fyrir hann. Ég horfði á hana fiska pylsuafganga upp úr báðum ruslafötunum og borða jafnóðum það sem hún fann. Hreinlegum servéttum hélt hún til haga og kom vandlega fyrir í einum plastpokanna. Mér fannst þetta frekar ógeðslegt á að horfa og þegar alveg var að koma að mér að panta mér pylsu og kók var ég búin að ákveða að bjóða henni að kaupa handa henni líka. En viti menn, akkúrat þá ákveður hún að ekki sé meira að hafa úr tunnunum og settist á annan bekkinn og kveikir sér í sígarettu! 

Kveikir sér í sígarettu! Mér brá svo að ég hætti við að bjóða henni í mat. Hugsaði, vá, ef hún á fyrir sígarettum þarf hún ekki að éta upp út ruslatunnum.

Það var ekki fyrr en á heimleið upp Laugaveginn að ég mundi að ég hafði alltaf, á meðan ég reykti sjálf, efni á að kaupa mér sígarettur, lét mig frekar vanta allt annað ef því var að skipta.

Bölvaður hræsnari getur maður verið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er ýmislegt skrítið í kýrhausnum....

Þráinn (IP-tala skráð) 27.6.2007 kl. 10:43

2 Smámynd: Ása Hildur Guðjónsdóttir

Vá dáist að þér að hafa list á pylsum eftir að horfa á þetta.

en svona er nú ísland í dag

Ása Hildur Guðjónsdóttir, 27.6.2007 kl. 11:18

3 identicon

Bara smá knús úr Síðumúlanum ljúfan mín;-) þarf að fara að sjá þig, kem í hádeginu einhvern næstu daga og dreg þig með mér í mat,- ekki samt Bæjarins besta.... Því miður eru þeir margir sem lifa á því sem við hendum og ekki víst að þessi kona eigi alltaf heilar sígarettur,- líklega eru þeir dagar fleiri sem hún reykir stubba sem hún grefur upp úr tunnunum. Ég hef ekki efni á að gagnrýna hana...... knús og kram

Halla (IP-tala skráð) 27.6.2007 kl. 14:17

4 identicon

Æi, það er sárt að horfa upp á mannlega eymd. Oftast er það nú vegna fíknar eða geðveiki sem fólk lendir á götunni. Man eftir því í þegar ég bjó í Seattle kom upp mikil umræða þegar hægt var að kaupa miða í matvörubúðum til að gefa betlurunum fyrir framan búðirnar. Miðarnir voru til þess að tryggja það að fólk gæti gefið útigangsfólki mat, frekar en að gefa peninga beint sem það nýtti svo til að kaupa vín, sígarettur eða annað slíkt. Margir töldu að með þessu væri verið að brjóta mannréttindi á hinum heimilislausu - þeir ættu að geta ráðstafað peningunum sínum sjálfir! Mótrökin voru þau að margir geta hugsað sér að aðstoða fólk í neyð með því að gefa mat og aðrar nauðsynjar en hefur kannski ekki áhuga á að viðhalda fíkn þeirra með peningagjöfum. Já, þetta er snúið...

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 27.6.2007 kl. 15:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband