18.7.2007 | 22:45
Sæti kranamaðurinn
Í síðustu færslu minnist ég á að ég hafi komið mér upp þeim vana að horfa ekki yfir götuna og láta þar með eins og allt sé eðlilegt heima hjá mér. En ég gleymdi einu, mjög athyglisverðu; kranamanninum!
Þegar ég stend við eldhúsvaskinn (sem er staðsettur í borði beint fyrir innan eldhúsgluggann) þá blasa við sjónum tveir risastórir kranar, þessir gulu sem alls staðar standa við vinnusvæði. Annar er fjær og kemur ekki meira við sögu. Húsið á þessum sem er nær, sem kranamaðurinn situr inní, ber hins vegar akkúrat við sjónum og ég sé að þar situr, dagana langa, fjallmyndarlegur maður sem hefur oftast nær ekkert annað að gera en að horfa inn um gluggann hjá mér. Sem er allt í lagi í eldhúsinu, jafnvel bara gaman.
En það vill svo til að við hliðina á eldhúsinu er baðherbergið. Þar er gluggi hátt á vegg, gardínulaus, og húsið á krananum innrammast í gluggakarminum. Ég sé kranamanninn það vel að ég sé hvort hann er með bera handleggi eða ekki. Þá hlýtur hann að sjá ansi vel inn til mín, eða það hef ég alla vega á tilfinningunni Ég reyni að halda mig til hlés, kveikja ekki ljós og vera vel klædd þegar því verður við komið. En, þetta er jú baðherbergi og þar er oft á tíðum jafnvel nauðsynlegt að vera alveg án fata. Ég veit að manninum hlýtur að leiðast þarna uppi og sennilega hefur hann ekki margt sér til afþreyingar svo ég ætti náttúrlega ekki að láta eins og pempía. En ég get ekki af því gert að finnast mínu prívati svolítið ógnað. Ekki nóg samt til að ég fái mér gardínur
Athugasemdir
Sæl Vilborg mín
Ég rakst á það í blogginu þínu um daginn að mamma þín ætti 80 ára afmæli á næstunni. Það má nú ekki minna vera en að ég sendi henni skeyti. Hvar verðið þið með afmælisfagnaðinn ?
Bið að heilsa
Hrefna Hjálmarsdóttir
Hrefna Hjálmarsdóttir (IP-tala skráð) 19.7.2007 kl. 11:08
Hahahahaha!!
Ekki dytti mér í HUG að vera alklædd með einmanna mann einan að horfa. Enda er mér strípihneigðin í blóð borin. En þú ert nú svo siðsöm....
Ylfa Mist Helgadóttir, 19.7.2007 kl. 15:01
Hahaha!
Linda (IP-tala skráð) 19.7.2007 kl. 18:37
Hrefna mín, við verðum með smá veislu á Hótel Sögu næsta laugardag en mamma á ekki afmæli fyrr en þann 27. og þá verður hún komin heim.
Ylfa, kannski ég fari bara að þróa upp í mér strípihneygð, ég hef alla vega eitthvað að sýna núna eftir að ég varð reyklaus fadderíogtrallala
Vilborg Valgarðsdóttir, 19.7.2007 kl. 21:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.