Komin heim

Leikhopur

Heil á húfi að mestu. Náði mér þó í svæsið asískt kvef, sem er á undanhaldi líkt og þotuþreytan. 

Tvo síðustu dagana fyrir heimferð stoppuðum við í Beijing í Kína og það verð ég að segja að aldrei hefði ég trúað hversu miklu er hægt að afkasta á svona stuttum tíma.

Það sem við gerðum meðal annars:

Lentum um kl. 22.00 að staðartíma. Vorum 8 saman í hóp og tókst næstum að láta óprúttna Kínverja plata okkur uppí ómerkta leigubíla. Hættum við á síðustu stundu þegar farið hafði verið með okkur niður á -3. hæð í bílakjallara á flugvellinum. Náðum í merkta bíla sem skiluðu okkur á hótelið fyrir þriðjung af verðinu sem glæponarnir höfðu sett upp.

Gengum á Kínamúrinn! Þvílík upplifun!

Heimsóttum handverksverksmiðju þar sem  búnir voru til vasar og aðrir skrautmunir skv. aldagamalli hefð. Einhver keisarinn hafði verið mjög geðvondur og í frekjuköstunum tók hann ævinlega einhvern skrautmun úr postulíni og þrumaði í gólfið svo allt fór í þúsund mola. Kínamenn urðu þá að leggja hausinn í bleyti og finna upp aðferð til að framleiða skrautmuni sem líktust postulíni en voru óbrjótandi. Þeir fundu út að hægt var að gera þá úr kopar og brenna litina í munstrin í brennsluofnum. Ótrúlega mikil vinna liggur að baki hvers grips og þeir eru hver öðrum fegurri. Eins var okkur sýnt þarna hvernig þeir vinna skartgripi og ýmislegt annað úr jade.

Heimsóttum silkiverksmiðju og fræddumst um allt ferlið við vinnslu á silki frá því að púpur silkiormsins eru tíndar á akrinum þar til búið er að sauma úr silkinu dýrindis fatnað og sængurföt.

Fórum á sýningu í Peking-óperunni. Það var æðislegt!

Borðuðum önd á ekta Peking-andar veitingahúsi. Mér fannst það ekki alveg eins æðislegt (bragðið ekki eins gott og ég hafði vonað) en gaman að hafa prófað. Þar er hver önd skorin við borð kúnnans í yfir 100 bita skv. gamalli hefð.

Fórum í 300 ára gamalt apótek og fengum fyrirlestur um kínverskar lækningar ásamt því að læknar skoðuðu allan hópinn og greindu hvað amaði að hverjum. Fengum baknudd á staðnum.

Fórum á Torg hins himneska friðar. Ólýsanlegt!

Skoðuðum Forboðnu borgina. Það tók okkur þrjá klukkutíma að fara inn að framan og út að aftan. Ótrúlega stórt svæði og gaman að koma þarna.

Sumir fóru á Kung-Fu sýningu. Heilluðust upp úr skónum.

Aðrir versluðu dálítið.

Fórum í nudd á nuddstofu við hliðina á hótelinu sem líktist helst subbulegu vændishúsi. Fótanuddið var frábært rétt fyrir heimferðina en lagt var af stað á flugvöllinn um kl. 22.00. 

Við komum heim um fimmleitið í gærdag, höfðum þá fengið til baka þær 9 klukkustundir sem við töpuðu á útleiðinni.  Löngu og ströngu ferðalagi er lokið og nú þarf ég bara að komast aftur í takt við lífsklukkuna hér á norðurslóðum.

Myndin hér að ofan er af ferðafélögum mínum ásamt leiðsögumönnum hópsins í Kóreu. Þarna eru þeir búnir að klæða sig upp fyrir lokahofið á leiklistarhátíðinni. Takk fyrir samveruna fallega fólk, þið eruð frábær Kissing


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ása Hildur Guðjónsdóttir

Velkomin heim

Heyri að þetta hefur verið bæði fróðlegt og skemmtilegt

Ása Hildur Guðjónsdóttir, 9.8.2007 kl. 18:32

2 identicon

Æðislegt að fá þig heim ljúfust mín og það 9 tímum yngri en þú varst í Peking;-) Hittumst fljótt, knús og færeyskt kram...

Halla (IP-tala skráð) 10.8.2007 kl. 15:45

3 identicon

Velkomin heim:)

Þráinn (IP-tala skráð) 13.8.2007 kl. 13:35

4 identicon

Takk sömuleiðis fyrir frábært ferðalag elsku Vibba mín, það er ætíð gaman að ferðast með þér

Siggadís (IP-tala skráð) 14.8.2007 kl. 20:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband