26.10.2007 | 16:22
Þann 25. október 1927
fæddist hann pabbi minn og hefði hann því orðið áttræður í gær ef hann hefði lifað, alveg eins og dásemdar-söngkonan hún Ingibjörg Þorbergs. Við systkinin, sex talsins, ákváðum að hittast í tilefni dagsins og borða saman súpu. Sem við og gerðum en okkur til mikillar undrunar og ánægju kom mamma líka, alla leið að norðan. Við rifjuðum upp gamla daga og sögðum sögur af samferðafólkinu sem margt var frekar skrautlegt á okkar tíma mælikvarða.
Pabbi var oft hrókur alls fagnaðar og átti það til að yrkja þannig að tekið var eftir. Þessi er t.d. fræg:
Fögur er hún Seyðisá
séð af brúnni.
Hvaða brú er það nú þá?
Það er brúin jamm og já.
Þegar þetta var ort var enn ekki komin brú yfir Seyðisá.
Myndin hér að ofan var tekin af okkur systkinunum og mömmu á áttræðisafmælinu hennar í sumar. Takk fyrir samveruna í gær mín kæra fjölskylda.
Athugasemdir
Sömuleiðis takk Vibba mín,
Þetta var virkilega gaman eins og alltaf þegar við hittumst :-)
Heyrumst fljótlega aftur,
Dísa
Dísa (IP-tala skráð) 27.10.2007 kl. 13:18
Datt inná þessa síðu alveg óvart og sá strax að andlitin á myndinni kannaðist ég við... amk nokkur. Mömmu þína sér maður alltaf öðru hvoru og ég man vel eftir Hrönn frá því að hún bjó á móti okkur í sveitinni í "gamla daga"
Kveðjur frá Blönduósi
Rannveig Lena Gísladóttir, 27.10.2007 kl. 13:46
Þetta er nú alveg þrælmyndarlegur barnahópur. Mikið verður nú þægilegt þegar þau verða hætt að grenja og óþægðast og það verður bara hægt að stilla þeim upp og taka af þeim mynd... Ætli maður verði ekki orðinn ca. áttræður? ;-)
Sigga Lára (IP-tala skráð) 27.10.2007 kl. 19:11
Sigga mín, þú byrjaðir svo seint á barneignunum að þú verður níræð þegar þú nærð svona mynd!
Erlingur, nei, pabbi minn var múrari, svínabóndi, sundlaugarvörður, sjoppueigandi og leirlistamaður svo fátt eitt sé nefnt.
Takk öll fyrir innlitin og kvittin
Vilborg Valgarðsdóttir, 29.10.2007 kl. 12:51
Það gleður mig alltaf jafn mikið, þegar mér tekst að svara reikningsdæminu hér að ofan!! Maður verður að hafa þetta rétt til að komast áfram er það ekki?
Það er gaman að halda svona fjölskyldukaffi og rifja upp gamlar bernskusyndir...
Líka þær sem eru nær í tíma eins og við gerðum í bústaðnum,- knús og kram ljúfust!
Halla (IP-tala skráð) 29.10.2007 kl. 13:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.