Forvitnilegur draumur

Mig dreymdi í nótt að ég, ásamt fyrrverandi eiginmanni og tveimur litlum börnum, byggi í stóru, gömlu, þriggja hæða timburhúsi í miðborginni, líklega í Þingholtunum. Í miðju hússins var stigi sem hringaðist upp allar hæðirnar og var stigagatið opið frá neðstu hæð og upp í þak. Mér fannst ég veita því athygli að það var farið að hrynja út loftinu og hugsaði að það yrði að gera við húsið áður en illa færi. En svo allt í einu hrynur húsið, efstu tvær hæðirnar leggjast alveg saman en neðsta hæðin heldur að mestu. Það slasaðist enginn en húsið varð óíbúðarhæft, ef ekki hreinlega ónýtt. Mér fannst ég frekar sorgmædd yfir þessum hremmingum og hugsa að það verði varla hægt að gera við svona miklar skemmdir. Slatti af fólki safnaðist saman við húsið og aðstoðaði okkur við að tína saman það sem nýtilegt var og koma því í burtu.
Þá finnst mér sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og konan hans komi og fari með okkur heim til sín. Þau segja að þar sem ég sé nú dóttir þeirra sé sjálfsagt að við búum hjá þeim meðan okkar húsnæðismál séu í óefni. Við löbbuðum með þeim heim til þeirra, en þau bjuggu bara í næstu götu. Gengið var inn frá götunni en síðan farið upp um nokkrar hæðir. Segir nú ekki meir af fjölskyldu minni (þ.e.a.s. manni og börnum, þau týndust einhvers staðar á leiðinni upp) en mér er boðið sæti við eldhúsborðið og eru boðnar einhverjar veitingar. Mér finnst ég sitja upp við vegg í eldhúsinu sem ég finn að hallast lítið eitt og ég spyr „mömmu“ hvort hún sé ekkert á taugum yfir því að hafa vegginn svona. Hún brosir og býður mér að skoða þetta nánar og þá kemur í ljós að hægt er að fara út um dyr á eldhúsveggnum hallandi og þegar út er komið stendur maður á klöpp, eins og húsið sé byggt inn í fjall og bara framhliðin sem snýr að götunni (og við komum inn um) sé viðbót við byggingarefni sjálfrar náttúrunnar. Þetta virkaði mjög traust og ég fann að ekkert myndi granda þessu húsi. Það kom að háttatíma og mér var boðið að sofa inn af herbergi þeirra hjóna sem bæði kysstu mig (dóttir sína) góða nótt. Ég sofnaði með þá tilfinningu að allt yrði í lagi, „pabbi“ myndi bjarga mínum málum.

Svona var nú það.
Eru ekki einhverjir draumspakir þarna úti sem geta ráðið drauma?
Það skal tekið fram að ég hef hvorki hitt borgarstjórann né konuna hans, bara séð þau í sjónvarpinu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er kannski bara fyrir því að húsið þitt hrynur ofan í holuhelvítið en enginn slasast og nýi borgarstjórinn jesúsar sig, kennir Sjálfstæðisflokknum um alltsaman og gefur þér og þínum miklu flottara húsnæði í sárabætur.

Bara hugmynd.

Siggalára (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 13:06

2 identicon

Bara að kasta á þig kveðju frænka. Langt síðan ég hef farið í almennilegan bloggrúnt.

Annars hef ég oft heyrt að hús séu tákn um eigin sál. Man mig dreymdi oft í gamla daga að ég væri litlum þröngum húsum, þar sem var lágt til lofts og kæfandi andrúmsloft. Nú eru húsin í draumunum hjá mér orðin stærri og bjartari

En hús sem hrynur, og svo annað sem kemur í staðinn sem er traust og öryggt - hlýtur það ekki að vera einhver áskorun og innri átök, sem leiða til uppgjafar en út frá því verður uppbygging og niðurstaðan verður eitthvað betra en það sem var áður, fyrir erfiðleikana???

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 20:56

3 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Hvaða fyrrverandi eiginmanni???

Ylfa Mist Helgadóttir, 20.11.2007 kl. 22:38

4 Smámynd: Vilborg Valgarðsdóttir

Ylfa, það var ekkert svo skýrt hvaða maður þetta var, þó sennilega eiginmaður númer 1. Og börnin voru eiginlega andlitslaus líka. Ég held þau séu rosalegir aukaleikarar í þesum draumi - öll þrjú.

Auður, takk fyrir þína ráðningu, ég hef líka heyrt þetta með að hús tákni mann sjálfan, eða „sjálfið“ ef maður vill orða það þannig. Og þá er bara bjart framundan, trúi ég.

Sigga Lára, ég er einmitt að bíða eftir úrskurði borgarlögmanns um ýmislegt „holutengt“. Kannski þeir endi með því að bjóða mér gull og gersemar fyrir húskofann ...

Vilborg Valgarðsdóttir, 21.11.2007 kl. 10:39

5 identicon

Sæl Vibba mín,

Ég sé að húsadraumar eru ættengir :-)

Þessi er áreiðanlega fyrir bjartri framtíð fjarri holubúskap. Hvað sástu annars þegar út á klöppina var komið?

Kv. Dísa

Disa (IP-tala skráð) 23.11.2007 kl. 22:59

6 Smámynd: Vilborg Valgarðsdóttir

Dísa, útsýnið var dálítið skrítið, þegar maður horfði í götuátt þá var eins og maður horfði yfir evrópskan borgarmiðbæ, þröngar steinlagðar götur, en í hina áttina var útsýnið það sama og af Höfðanum á Skagaströnd þegar maður var búinn að krifra upp frá húsi ömmu og afa og kominn á toppinn. Þar sá niður aflíðandi grasbrekku alla leið niður að sjó en í fjörunni voru stórir, mjúkir steinar og pollar þar sem gaman var að leika sér í gamla daga. Mjög friðsælt og fallegt.

Hefur þig líka verið að dreyma hús? 

Vilborg Valgarðsdóttir, 24.11.2007 kl. 20:40

7 identicon

Ljúfan mín. Þetta er afar góður draumur, svo ekki sé nú meira sagt og síðustu upplýsingar um útsýnið skemmdu hann ekki... Er sammála að þetta er líf þitt og ég held að útsýnið sé lífið, evrópska götumyndin sé fortíðin, krókótt en traust og framtíðin falleg og þægileg ég er svaka spesjalisti í draumum! Knús og kram...

Halla (IP-tala skráð) 26.11.2007 kl. 14:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband