Magnað Stúdíó sex

Var að ljúka við Stúdó sex sem ég byrjaði að skrifa um í síðustu færslu. Mæli hiklaust með henni en til að skemma ekki fyrir þeim sem ekki hafa lesið hana ætla ég ekki að segja hvað var svona magnað. Allt laukst upp fyrir lesandanum á síðustu blaðsíðunum. Og skýringin á líkamlegri vanlíðan söguhetjunnar kom verulega á óvart.

Byrjaði á Ballöðunni um Bubba Mortens eftir Jón Atla Jónasson rétt fyrir svefninn í gærkvöldi. Veit ekki enn hvað mér á að finnast en trúi ekki öðru en að þegar þeir Bubbi og Jón Atli leggja saman verði til einhver galdur.

Og 11 dagar í stóra daginn. Allt gott um það að segja.

Það er loksins farið að hlýna aðeins, mikill munur að koma út í morgun og rekast ekki á frostvegginn sem hefur tekið á móti manni allt of lengi.

 


13 dagar enn

Lauk við Tíma nornarinnar um helgina. Heilt yfir ágæt lesning, þó ekki væri mikið um að vera á löngum köflum. En Árni er fyndinn, svo fyndinn að ég skellti oft uppúr, sérstaklega framan af. Einar blaðamaður er annars voða rólegur svona edrú.

Er langt komin með Stúdíó sex eftir Lizu Marklund, en hún hafði einhverra hluta vegna farið fram hjá mér þegar hún kom út árið 2002. Mér finnst Liza ágætur höfundur og setur reynsla hennar af blaðamennsku sterkan svip á sögurnar hennar. Aðalsöguhetjan í Stúdíói sex er Annika Bengtzon, sem er að hefja feril sinn sem blaðamaður í þessari bók. Á leið heim úr vinnunni, klukkan rúmlega fimm að morgni, gengur hún fram á lík ungrar konu og gengur sagan út á að upplýsa morðið. Bara nokkuð spennandi, en enn sem komið er finnst mér mest forvitnilegt að fá að vita af hverju blaðakonan er alltaf svona slöpp líkamlega.

Í dag eru 13 dagar þangað til ég hætti að reykja. Er búin að vera að telja niður síðan í nóvember. Þetta er orðið lífsspursmál fyrir mig sem hef reykt uppstyttulítið í tæp 40 ár. Ég hugsa mér að halda einhvers konar dagbók yfir reynsluna og deila með ykkur ef mín aðferð skyldi gagnast fleirum. Meira um það síðar.

Og svo mætti alveg fara að hlýna svolítið.


Öfug Pollýanna

Maður nokkur átti enga skó. Hann vorkenndi sér og vorkenndi þar til hann hitti fótalausan mann.

Þessari lýsingu stal ég úr Tíma nornarinnar eftir Árna Þórarinsson. Svona Pollýönnu-frasi sem fær okkur til að hugleiða hversu gott við raunverulega höfum það miðað við þá sem hafa það verra.

Það er þó hægt að snúa þessu við og segja sem svo:

Maður nokkur átti enga skó. Hann vorkenndi sér og vorkenndi þar til hann hitti mann sem svo lengi hafði gengið skólaus að hann saknaði einskis.

Í gær þurfti ég að borga 112.000 fyrir viðgerð og skoðun á bílnum mínum, mér alsendis að óvörum. Ég átti ekki þessa peninga og þurfti því að notfæra mér yfirdráttarheimildina í bankanum. Ég vorkenndi mér og vorkenndi þar til vinkona mín sagði mér að hún hefði nýlega endurfjármagnað húsnæðislánin sín, greitt upp yfirdráttinn og minnkað greiðslubyrði sína um 36.000 á mánuði. Og ekki nóg með það heldur hafi hún ákveðið að nota nýju leiðina hjá Glitni til að spara með því að borga alltaf einhverjum hundraðköllum meira þegar hún notar debetkortið sitt og nú horfir hún á sparnaðinn vaxa í heimabankanum þar sem allt var í mínus áður.

Ég samgladdist vinkonu minni svo mikið að ég steinhætti að nenna að vorkenna mér. Þetta reddast auðvitað eins og venjulega.

Gangi þér allt í haginn elsku Halla mín.

Vinátta

Ég er því miður frekar ódugleg við að rækta samböndin við vini mína. Er löt að fara út úr húsi þegar vinnu líkur og líður best heima um helgar þegar ég þarf ekki að vinna. Með bók í hendi, eins og fram hefur komið í færslunum hér að neðan. Þetta er ekki vegna þess að ég vilji ekki eða nenni ekki. Ég hef bara ekki hugsun á því.

En sem betur fer á ég svo góða vini að þeir láta hugsunarleysi mitt ekki aftra sér frá því að hafa samband við mig þegar þeim sýnist svo. Og fyrir það er ég þeim ævinlega þakklát. Því þegar ég hugsa um að ég gæti týnt þeim fyrir fullt og fast með sinnuleysi mínu fer virkilega um mig.

Ég velti þessu upp núna vegna þess að í gærkvöldi kom ein af mínum bestu vinkonum í heimsókn með manninn sinn með sér. Við höfðum þá ekki sést síðan í sumar þótt ekki sé langt á milli okkar. Þau hjónin höfðu verið að erindast í nágrenninu og bara datt svona í hug að athuga hvort ég væri heima. Þetta varð síðan yndisleg kvöldstund hjá okkur þremur.
Þegar þau kvöddu þakkaði ég þeim innilega fyrir komuna og bað um leið afsökunnar á að hafa ekki sjálf verið búin að hafa samband. Þá sagði þessi vinkona mín, sem er svo vel af guði gerð, að þau hjónin hefðu tekið um það meðvitaða ákvörðun að hafa sjálf samband við það fólk sem þeim þætti þess vert að halda sambandi við. Mér finnst þetta til fyrirmyndar og ætla að reyna að gera betur sjálf. Skammast mín satt að segja svolítið.

Ég hef reyndar ekki alltaf verið svona. Ég var mjög dugleg við að heimsækja þá sem ég taldi vini mína hér á árum áður. En ég verð að viðurkenna að á einhverjum tímapunkti hætti ég að fara eða hringja til þeirra sem ekki endurguldu heimsóknir mínar og símtöl. Taldi að það fólk vildi ekkert með mína vináttu gera. Sem er sennilega misskilningur ef dæma má út frá sjálfri mér í dag. En það er svo furðulegt að það verður erfiðara eftir því sem lengra líður að taka aftur upp þráðinn þar sem hann hefur slitnað. Og svo tekur sinnuleysið við, meira að segja gagnvart þeim sem síst eiga það skilið. Fuss og svei!

Takk fyrir komuna elsku Hrafnhildur mín.

Morð og draugar

Kláraði að lesa Sér grefur gröf í gærkvöldi. Ég veit ekki alveg hvað mér á að finnast, en Þóra lögfræðingur, sem er aðalsöguhetjan, á greinilega fyrir höndum langt framhaldslíf. Allt skilið eftir í opið hennar málum. Þegar þessari sögu líkur er hún, eftir að hafa upplýst morðin og draugaganginn, nýorðin amma í fyrsta sinn, tvístígandi yfir sambandi sínu við þýskan elskhuga og veit ekki hvað hún á að gera við jeppa og hjólhýsi sem hún keypti fyrir gróðann af málinu í Þriðja tákninu. Ýmislegt hægt að spinna útfrá þessu og hræra saman við nokkur safarík morð.

Næsta bók á náttboðrinu er Tími nornarinnar eftir Árna Þórarinsson. Mér þykir Árni ágætur höfundur, síðast las ég Farþegann eftir Árna og Pál Kristinn Pálsson. Hún var ágæt og með ólíkindum að maður yrði þess ekki var að tveir höfundar skrifuðu textann til skiptis. En ég hlakka til að hitta aftur Einar blaðamann, sem í byrjun bókar hefur verið sendur norður á Akureyri með sitt óbrigðula fréttanef.

Mér finnst einhvern veginn þægilegra að lesa um illvirki í skáldsögum en sannar sögur úr Byrginu, Breiðuvík og Heyrnleysingjaskólanum í nútíð og fortíð. Það er örugglega raunveruleikaflótti - en hvað getur maður svo sem gert annað en að kyngja ælunni og vorkenna fórnarlömbunum?

Meira um bækur

Ég kláraði Valkyrjurnar hans Þráinns um helgina og er langt komin með Sér grefur gröf eftir Yrsu Sigurðardóttur.

Valkyrjur er góð og þrælspennandi skemmtun, það komast ekki margir með tærnar þar sem Þráinn hefur hælana í lymskulegum stílnum. Maður mátti passa sig á að vera ekki að bera söguhetjurnar hans saman við núlifandi fólk hér í samfélaginu og sjá það fyrir sér í vafasömum aðstæðum.

Sér grefur gröf er líka fín og spennandi enn sem komið er. Ég man varla eftir átakanlegri byrjunarkafla, en þar segir af manni sem lokar fjögurra ára gamla telpu ofaní gryfju í jörðinni á yfirgefnu bóndabýli árið 1946 og segir henni að bíða róleg þar til Guð sæki hana. Sagan hefst svo aftur árið 2006 og gengur á með morðum, draugatrú og alls konar skemmtilegheitum.

Ætla að setja í forgang að kúra undir sæng og lesa þar til þiðnar í vor - á milli þess sem ég skrepp í vinnuna og á bókasafnið. Á bílnum. Ekki á nöglum.

Bækur eru nauðsynjavara

Bóklestur er dópið mitt, ef ég á ekki eitthvað ólesið í húsinu er ég óróleg í sálinni og allt er ómögulegt. Ég les þó ekki mér né nokkrum öðrum til gagns, man stundum ekki hvað ég las í gær og ef ég er spurð hvort ég hafi lesið þessa bókina eða hina þarf ég helst að sjá hana og byrja á fyrsta kaflanum til að muna það. En það er sjaldgæft að ég lesi sömu bókina tvisvar, því það skemmtilegasta við lesturinn er að láta koma mér á óvart. Þó man ég eftir að hafa lesið Sjálfstætt fólk a.m.k. tvisvar.

Frá jólum hef ég meðal annars verið að lesa íslenskar glæpasögur. Kláraði það sem ég átti eftir af Arnaldi, Röddina, Mýrina og Kleifarvatn, Sá yðar sem syndlaus er eftir Ævar Örn, Þriðja táknið eftir Yrsu og var á byrja á Valkyrjum eftir Þráinn Bertelson.

Ævar Örn stóð ekki undir væntingum í þetta sinn, Arnaldur var jafn og ágætur þótt ég hafi verið orðin dálítið þunglynd eftir viku með Erlendi og Yrsa var þokkaleg en nokkuð fyrirsjáanleg. Mér fannst ég hafa lesið bókin áður einhverra hluta vegna. Nýja bókin hennar bíður á náttborðinu. Valkyrjur lofa góðu.

Svo kynntist ég nýjum höfundi, Sigurjóni Magnússyni, og hann kom sannarlega á óvart. Ég las í rykk þrjár af hans bókum, Hér hlustar aldrei neinn, Góða nótt Silja og þessa nýju, Gaddavír. Þetta eru myrkar sögur en skínandi vel skrifaðar. Mæli með þeim en þó ekki við þunglynda.

Mitt besta ráð til þeirra sem láta skammdegið fara í taugarnar á sér er að fara á bókasafnið og verða sér úti um eitthvað girnilegt, gamalt eða nýtt. Namminamminamm, eins og litla sonardóttir mín segir. Hún er bara rúmlega 16 mánaða og bækur eru strax orðnar hennar uppáhald. Hún mælir með Dodda.


Dagur 1 - Handbolti og blogg

Ég sór ákaflega kjánalegt heit í gær. Það var að ef íslenska landsliðið í handbolta stæði í Dönum þá myndi ég prufa að byrja að blogga. Og strákarnir okkar stóðu svo sannarlega í frændum vorum, þó munað hafi einu marki eftir framlengingu.

Þetta er allt mjög dularfullt þar sem ég er mjög mikill antisportisti og horfi aldrei á kappleiki af neinni sort. En í gær var fréttatíminn á RÚV látinn bíða þar til eftir leik og fátt um fína drætti á öðrum stöðvum. Ég skipti því yfir á RÚV þegar um 15 mín. voru eftir af fyrri hálfleik og hugðist sinna heimilsstörfum á meðan á leiknum stæði - en viti menn - ég sat bara pikkföst yfir leiknum til enda og fann hvernig blóðþrýstingurinn hækkaði stöðugt þar til yfir lauk. Þvílík spenna!

Ég veit ekki alveg hvað þetta er með Dani og mig. Ég á dóttur, danskan tengdason og barnabörn í Danmörku og finnst yndislegt að koma þangað. En það er alltaf eitthvað. Þegar Danir láta að því liggja að útrásarbarónarnir okkar séu óheiðarlegir þá móðgast ég. Og þegar þeir byrjuðu strax að hrósa sigri yfir leiknum í gær, áður en hann hafði verið leikinn, þá móðgaðist ég. Sennilega á þessi móðgunargirni mín við Dani sér djúpar rætur. Í fyrsta sinn sem ég heimsótti Kaupmannahöfn, þá á þrítugasaldi, hélt ég að það væri nú ekki mikið mál að tala við heimamenn, ég hafði jú eins og öll íslensk börn lært dönsku í skóla og fékk alltaf hátt í henni. Og las dönskuna reiprennandi. Í þessari fyrstu heimsókn minni komst ég hins vegar að því að ég gæti eins hafa verið að læra japönsku öll þessi ár því heimamenn þóttust ekki skilja orð af því sem ég sagði. Ef ég bað um "en pølse" var öskrað til baka "HVAD?" og ekki um annað að ræða en að tala ensku ef ég átti ekki að svelta heilu hungri. Þetta gengur svo sem betur í dag eftir áratuga æfingu en mér finnst þeir alltaf hrokafullir og reyna ekkert til að skilja, hvað þá að vanda sig við að tala.

Handbolti og blogg eiga svo sem ekkert sameiginlegt nema þegar annað þjónar hinu. Og ég get alveg lofað þeim sem þetta lesa að íþróttir verða ekki oft hér til umfjöllunar. Kannski aldrei aftur. Hvað annað verður bara að koma í ljós.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband