1.3.2007 | 19:46
Nýtt líf, dagur 4
Í gærkvöldi og í dag hefur reynt á að díla við mótlæti daglegs lífs bæði innan og utan hælis (við köllum heilsustofnunina hæli í gríni).
Í fyrrakvöld fór ég að hlaupa upp í útbrotum og í gærkvöldi fékk ég þann úrskurð að ég væri með ofnæmi fyrir einhverju í leirnum sem notaður er í leirböðin og þess vegna má ég ekki fara í klórvatn á næstunni. Það þýðir að ég má ekki fara í heita pottinn eða sundlaugina það sem eftir lifir afeitrunartímanns. Sem er hundfúlt en ekkert við að gera.
Svo í dag ákváðum við konurnar í hópnum að skreppa á Selfoss og athuga hvort við gætum ekki eytt einhverju af uppsöfnuðum gróða síðustu viku (þ.e. því sem við eyddum ekki í sígarettur). Ég ákvað þá að fara með bílinn minn á bónstöð og láta þrífa úr honum reykingalyktina áður en ég færi heim á sunnudaginn. Þegar ég ætlaði að opna bílinn var hann algjörlega rafmagnslaus og ég gat ekki opnað hann. Verð því líklega að keyra hann heim óþrifinn. En strákarnir í hópnum ætla að hjálpa mér með hann á morgun, svo sjáum við til. En ég bölvaði mjög hraustlega, vægast sagt...
Við fórum á Selfoss á öðrum bíl og ég hitti 3 af mínum bestu vinkonum á förnum vegi. Þær voru mjög hissa á að sjá mig "ganga lausa".
Meira seinna, kveðja til ykkar allra sem lesa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.2.2007 | 16:47
Nýtt líf, dagur 3
Ég vil byrja á að þakka öllum sem hafa sent mér hvatningaróskir, bæði hér á síðunni og eins í SMS. Það er dásamlegt að vita að svona mörgum er ekki sama.
En annars er það af mér að segja, nú á þriðja degi afeitrunar, að ég er bara hress og líður nokkuð vel. Það er ótrúlegur stuðningur að hætta þessu svona í hópi með fullt af ráðgjöfum og sérfræðingum í öllu mögulegu sem stappa í mann stálinu. Þetta fólk veit af hverju manni líður svona en ekki hinsegin og á fullt af góðum ráðum. Og ekki skemmir fyrir að geta farið í sund, heita potta, leirböð, leikfimi og svo í tækjasalinn. Og út að ganga, það er voða gott.
Annars er ég núna að bíða eftir að þvottavélin klári að þvo bókstaflega öll fötin sem ég kom með hingað, þvílík og önnur eins reykingalykt! Ojbara og sveiattan!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.2.2007 | 16:29
Nýtt líf, dagur 1
Þá er fyrsti reyklausi sólarhringurinn liðinn og ég er bara hress. Það er góður 9 manna hópur, flestir á miðjum aldri, sem ætlar í sameiningu að hætta að reykja. Mjög er misjafnt hvað fólk hefur reykt mikið, mér finnst t.d. hálfgert svindl að fólk sem reykir bara 5-10 sígarettur á dag þurfi í svona meðferð. Ég kalla það varla reykingar.
Hér er gott að vera og allt til alls ef horft er til heilsu og hreyfingar. Ég hjólaði t.d. 3 km. áðan og er örugglega búin að ganga 10 km. Hér eru endalausir gangar og erfitt að rata til að byrja með. Í gærkvöldi gekk ég sama hringinn aftur og aftur og fann ekki leiðina inn á herbergið mitt. Svo er planið að fara í sundi í kvöld, heitan pott, blauta gufu, víxlbað og guð má vita hvað þetta heitir allt saman.
Og leikfimi kl. 8.10 í fyrramálið!
Kærar kveðjur til ykkar allra þangað til næst.
Bloggar | Breytt 3.3.2007 kl. 09:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
25.2.2007 | 02:38
Jæja
Þá er kvöldið liðið og brautin er bein!
Ekkert nema frágangur eftir.
Ég vakna í síðasta sinn á morgun þannig að ég sæki Moggann og les hann í rúminu og reyki hverja sígarettuna á fætur annarri á meðan.
Svo pakka ég og keyri til Hveragerðis - og ekkert verður eins, aldrei.
Guð láti gott á vita.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.2.2007 | 23:29
Svanasöngurinn
Jæja, þá er síðasti heili reykingadagurinn á enda og á morgun er það Hveragerði með afeitrun og grænmetisfæði. Ég hef grínast með að ég komi til baka reyklaus en með kálhaus :o)
Þá kveð ég púkaskrattann sem hefur sagt mér fyrir verkum meirihlutann af lífi mínu. Púkann sem vekur mig á nóttunni og segir: Fáðu þér að reykja NÚNA, púkann sem hefur aldrei gefið nema svona klukkutíma grið án þess að suða, púkadjöfulinn sem hefur sagt mér að það sé allt í þessu fína svo lengi sem ég hlýði.
Ég ætla ekki að hlýða lengur. Þegar hann fer að suða þá verð ég heyrnarlaus.
Það er ég viss um.
Held ég örugglega.
Til hamingju með frumsýninguna elsku Halla mín.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.2.2007 | 13:56
Landakaupandi
![]() |
Reykjanesbær sýknaður af kröfum vegna landakaupa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2007 | 13:40
Detti mér nú allar dauðar lýs úr höfði!
Og hvað haldið þið? Útkoman er 12,7 milljónir, hvorki meira né minna!!!
Ég er ekki að grínast.
365x600x20=4.380.000
365x1.200x19=8.322.000
Samtals 12.702.000
Ef þetta er ekki ástæða ein og sér til að hætta NÚNA þá veit ég ekki hvað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.2.2007 | 14:30
Kvíði - 3 dagar til stefnu
Ég lauk við Fenrisúlfunn hans Bjarna Klemenzar í gærkvöldi, öfugt við það sem ég hélt í næst-síðustu færslu að ég myndi gera. Bjarni er ágætur penni en viðfangsefnið er mér að mestu óskiljanlegt. Sagan sem sögð er virðist aðallega gerast í höfði dópistanna sem eru í aðalhlutverkunum og líkist því mest vísindaskáldsögu, en það eru bókmenntir sem ég hef ekki lesið mér til ánægju hingað til. En hún hélt mér samt alla leið til enda og það segir eitthvað.
Byrjaði svo á kilju eftir Nick McDonell sem heitir The Third Brother. Höfundur er ungur New York-búi (fæddur 1984). Hann gaf út sína fyrstu bók, Twelve, árið 2002 og er þetta þá afurð hans nr. 2. Hann fær góða dóma á ýmsum vefsíðum og verður gaman að vita hvort hann stendur undir þeim.
Nú er reykstopp-dagurinn farin að nálgast ískyggilega, bara 3 dagar eftir í kófinu. Hjúkrunarfræðingurinn í Hveragerði hringdi í mig í gær og spurði hvort ég væri ekki örugglega ákveðin í að koma. Ég sagði það vera. Þá spurði hún hvernig það leggðist í mig að vera að fara að hætta. Mér til mikillar undrunar stóð svarið lengi í mér. En á endanum svaraði ég að ég bara vissi það ekki. Ég sem er búin að vera harðákveðin í þessu síðan í nóvember! En auðvitað ætla ég enn að hætta, það er bara ekki hægt að neita því að það fylgir því viss kvíði ég veit svo sem ekki við hvað. Auðvitað ætti ég að hlakka til að losna við þennan djöful sem ég hef dregið allt of lengi og ég geri það líka. Og auðvitað ætti ég að hlakka til að eiga alla peningana sjálf sem ég hef borgað fyrir óþverrann og ég geri það líka. En samt ...?
Ég bara veit það ekki.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.2.2007 | 14:28
Skemmtileg upptalning
Ég stal eftirfarandi af blogginu hans Geira:
Fólk sem að fæddist fyrir 1980 ætti að vera dáið!!!
Já, samkvæmt löggjöfum og skriffinnum nútímans ættu þau okkar sem voru börn á 5., 6., 7. og 8. áratug síðustu aldar ekki að hafa lifað af.
HVERS VEGNA?
Jú, barnarúmin okkar voru máluð með blýmálningu.
Það var engin barnalæsing á lyfjaglösum, hurðum eða skápum og þegar við hjóluðum notaði ekkert okkar hjálm.
Sem börn sátum við í bílum án öryggisbelta og/eða púða.
Að fá far á vörubílspalli var sérlega gaman.
Við borðuðum brauð með smjöri, drukkum gos með sykri, en fæst okkar lentu í offituvandamálum, því við vorum alltaf úti að leika.
Við deildum gjarnan gosflösku með öðrum og allir drukku úr sömu flöskunni án þess að nokkur létist.
Við vörðum löngum stundum í að byggja kassabíl úr dóti og drasli og þutum á honum niður brekkuna, bara til að uppgötva að við höfðum gleymt bremsunum. Eftir nokkrar veltur lærðum við að leysa vandamálið.
Við fórum að heiman snemma á morgnanna til að leika okkur allan daginn og komum aftur heim í kvöldmat Enginn hafði möguleika á því að ná í okkur yfir daginn.
Engir farsímar. Ha, engir farsímar? Óhugsandi! Sumir áttu litlar talstöðvar sem var flott að eiga!
Við áttum ekki Playstation, Nintento 64, X-box, enga tölvuleiki, ekki fjölmargar rásir í sjónvarpinu, ekki video, ekki gervihnattasjónvarp, ekki heimabíó, farsíma, heimilistölvu eða spjallrásir á Internetinu.
Við eignuðumst vini! Við fórum bara út og fundum þá.
Við duttum í skurði, skárum okkur, fótbrotnuðum, brutum tennur, en enginn var kærður fyrir þessi óhöpp. Þetta voru jú óhöpp. Það var ekki hægt að kenna neinum um nema okkur sjálfum. Manstu eftir óhappi?
Við slógumst, urðum blá og marin og lærðum að komast yfir það. Við lékum okkur í nýbyggingum, fundum upp leiki með naglaspýtum og drasli og átum maðka og reyktum njóla. Þrátt fyrir aðvaranir voru það ekki mörg augu sem duttu út og ekki lifðu maðkarnir inni í okkur til eilífðar og margir gáfust upp á fyrsta njólanum!
Við hjóluðum eða gengum hvert til annars, bönkuðum á dyrnar, gengum inn og létum eins og heima hjá okkur.
Við lékum okkur úti eftir kvöldmat, fórum í fallin spýta, eina krónu, eltingaleik eða feluleik, svo ekki sé minnst á löggu og bófa.
Svo þegar aldurinn sagði til sín fórum við í kossaleik og eignuðumst kærustu/kærasta. Það þurfti engar félagsmiðstöðvar eða neina til að stjórna okkur - við stjórnuðum okkur sjálf.
Sumir nemendur voru ekki eins glúrnir og aðrir, þeir lentu í tossabekk. Hræðilegt ... en þeir lifðu af.
Engin vissi hvað rítalín var og engin bruddi pillur sem barn.
Við fórum í sunnudagsskóla eða sóttum KFUM og K, sungum og vorum í skátunum og lærðum hnúta og kurteisi.
Ef það sprakk á hjólinu lagfærðum við það í sameiningu og alveg sjálf.
Morgunkornið okkar var m.a. TRIX morgunkorn, og við lifðum af litarefnið í því...
OG AFLEIÐINGIN ER ÞESSI!
Síðustu 50 ár hafa verið sprengja nýsköpunar og nýrra hugmynda. Við áttum frelsi, sigra ósigra og ábyrgð og við lærðum að takast á við það allt saman. Við sem ólumst upp áður en löggjafi og stjórnvöld settu lög og reglur um líf okkar sem þeir segja að sé "okkur sjálfum fyrir bestu".
Þessi kynslóð hefur alið af sér fólk sem er tilbúið að taka áhættu, góð að leysa vandamál og er bestu fjárfestar nokkru sinni.
Við áttum bara gott líf er það ekki?
Bloggar | Breytt 22.2.2007 kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.2.2007 | 14:39
Vondar konur og 6 dagar í reykleysi
Svo las ég Næturvaktina eftir japanska höfundinn Natsuo Kirino. Um hana segir á bókarkápu: "Ung kona, sem búsett er í úthverfi Tókíó, slysast til þess að drepa eiginmann sinn í bræðiskasti. Til að losna við líkið leitar hún aðstoðar hjá þremur konum sem starfa með henni á næturvöktum í skyndiréttaverksmiðju. Framundan er ófyrirsjáanleg atburðarás þar sem konurnar leita allra leiða til að koma sér hjá refsingu." Þessi saga er nokkuð spennandi og "öðruvísi", henni svipar til Snáka og eyrnalokka eftir Hitomi Kanehara að því leiti að grimmdin er altumlykjandi og vonleysi persónanna næstum því áþreyfanlegt.
Það er annars skrítið að í öllum skáldsögum sem ég hef lesið og eiga að gerast bæði í Japan og Kína þá eru alltaf til staðar einhverjar kvenpersónur svo gegnum vondar og heimskar, venjulega feitar og subbulegar með rifur fyrir augu, að ekki er vært í nálægð þeirra. Ég þakka guði fyrir að slíkar konur finnast ekki hér á landi.
Var að byrja á Fenrisúlfi eftir Bjarna Klemenz. Það eru engar upplýsingar um höfundinn á bókarkápu en ég held að þetta sé hans fyrsta bók. Ég er ekkert viss um að ég klári hana, mér líst þannig á byrjunina að hún sé skrifuð fyrir lesendur um tvítugt sem halda sig mest á börunum í 101.
í dag eru 6 dagar þangað til ég hætti að reykja. Ég er búin að skrá mig á viku námskeið hjá Nátturulækningastofnuninni í Hveragerði. Ég er búin að ætla að hætta lengi en ekkert orðið af því svo ég sá mér þann kost vænstan að fara að heiman gagngert í þessum tilgangi. En þar sem ég hef haldið mér svo lengi í sígarettuna þá þori ég ekki alveg að hugsa hvernig lífið verður án hennar. Þess vegna ákvað ég að fara að ráði heimilslæknisins míns og taka lyf sem heitir Zyban og hefur reynst mörgum gott hjálpartæki. Lyfið var víst upphaflega framleitt sem þunglyndislyf en virkaði ekki sem slíkt en þeim sem tóku það hætti alveg óvart að langa í tóbak. Mælt er með að maður taki lyfið í 10 daga áður en maður hættir alveg. Vona að þetta virki á mig.
Bloggar | Breytt 20.2.2007 kl. 09:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)