26.6.2007 | 19:55
Saga úr daglega lífinu
Ég stóð í biðröðinni við pylsuvagninn í Tryggvagötu. Hafði fengið mér göngutúr niður Laugaveginn í sólskininu og endað í norðanrokinu þar niðurfrá. Fyrir framan mig stóðu tvær þýskar konur á miðjum aldri sem virtu vandlega fyrir sér íslenskan þúsundkall. Þær bentu á seðilinn og hlógu, ekki veit ég að hverju. Skyndilega vekur athygli mína mannvera á kafi í annarri ruslatunnunni sem stendur vestanmegin við pylsuvagninn. Ég velti fyrir mér hvort þetta væri ein af þessum manneskjum sem virðast lifa á því að safna flöskum og dósum á götum borgarinnar, en nokkrar þeirra eru fastagestir í ruslatunnunum aftan við vinnustaðinn minn.
En ekki alveg og gettu aftur húsfreyja.
Þegar mannveran reisti sig upp úr tunnunni sá ég að þetta var fullorðin kona, sennilega á sjötugsaldri. Það var reyndar erfitt að gera sér grein fyrir aldri hennar þar sem hún var svo skítug að varla sá í hreinan blett. Hárið var stálgrátt, millisítt og kleprað af skít. Hún var klædd dökkum buxum og jakka og hafði eina fimm plastpoka meðferðis, jafn skítuga og hún var sjálf. Greinilega útigangsmanneskja.
En hún var ekki að safna flöskum enda afgreiðir pylsuvagninn gosið bara út í pappaglösum og líklega lítið að hafa í þeirra ruslatunnum. Þessi kona var bara líka að fá sér hádegismat eins og aðrir gestir vagnsins - en hún ætlaði bara ekki að borga fyrir hann. Ég horfði á hana fiska pylsuafganga upp úr báðum ruslafötunum og borða jafnóðum það sem hún fann. Hreinlegum servéttum hélt hún til haga og kom vandlega fyrir í einum plastpokanna. Mér fannst þetta frekar ógeðslegt á að horfa og þegar alveg var að koma að mér að panta mér pylsu og kók var ég búin að ákveða að bjóða henni að kaupa handa henni líka. En viti menn, akkúrat þá ákveður hún að ekki sé meira að hafa úr tunnunum og settist á annan bekkinn og kveikir sér í sígarettu!
Kveikir sér í sígarettu! Mér brá svo að ég hætti við að bjóða henni í mat. Hugsaði, vá, ef hún á fyrir sígarettum þarf hún ekki að éta upp út ruslatunnum.
Það var ekki fyrr en á heimleið upp Laugaveginn að ég mundi að ég hafði alltaf, á meðan ég reykti sjálf, efni á að kaupa mér sígarettur, lét mig frekar vanta allt annað ef því var að skipta.
Bölvaður hræsnari getur maður verið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.6.2007 | 22:31
Afmælisdagur
Yngsti sonur minn á afmæli í dag og ég líka
Ekki að við eigum venjulega sama afmælisdag en að þessu sinni er skýringin sú að hann fæddist þennan dag fyrir 26 árum en ég hætti að reykja fyrir 4 mánuðum!
Það er annars dálítið sniðugt (og auðvelt að muna) að elsti sonurinn er fæddur 18. júní, viku seinna eða 25. júní kemur sá yngsti og svo ég sjálf 2 vikum þar á eftir eða 7. júlí. Og afmælin okkar enda alltaf á sömu tölu, þegar Kiddi fæddist var Valgeir 10 ára og ég 30 ára. Einfalt, ekki satt?
Ég hef ekki verið í skapi til að blogga undanfarið, einhver geðvonska riðið húsum. Eða eitthvað.
Innilega til hamingju með daginn Kiddi minn og hafið þið kærustuparið það gott í Amsterdam!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.6.2007 | 23:58
Gleðilegt sumar!
Veðrið í kvöld er alveg dásamlegt. Það er logn og heiðskýrt og núna, klukkan að verða 12 á miðnætti, er 11 stiga hiti. Það liggur við að mann langi út að hjóla Fór áðan út á svalir til að fylgjast með köngulóarbúskapnum, mér þykja þær litlar í ár, en Linda, tengdadóttir mín, er þess fullviss að mjór sé mikils vísir og að þær eigi eftir að ná sömu stærðargráðu og í fyrra þegar líður á sumarið. Spennandi - því þá voru þær virkilega feitar og fallegar!
Í kvöld ætlaði ég að hitta reyklausa hópinn minn en frétti á síðustu stundu að enginn gæti mætt; einn var að vinna, annar var í Sviss og sá þriðji og síðasti (auk mín) var í góðum málum, kominn í bjór og grill með fjölskyldunni í tilefni góða veðursins. Eins og ég skýrði frá síðasta mánudag þá erum við bara fjögur eftir með geislabauginn.
Í staðinn ákvað ég að skutlast til yngstu systur minnar og horfa með henni á lokaþáttinn á Grey´s Anatomy. Stutt frá sagt þá olli þátturinn okkur báðum miklum vonbrigðum. Ekkert af þessu fólki sem búið var að ströggla í 25 þáttum átti í raun góðan endi, allir í tómu tjóni. Maður skilur ekki alveg ...
Annars hefur hugurinn verið hjá elskulegum mági mínum, ég hef til öryggis kveikt á kerti og mun gera það á hverju kvöldi þar til allt er í höfn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.6.2007 | 01:15
Og einn stuttur fyrir svefninn
Ónefndur sveitamaður norðan úr landi flutti til Reykjavíkur og var einhvern tíma spurður hvernig honum líkaði. Hann svaraði að bragði: Ég hef alltaf heyrt sagt að rigningin væri tár Guðs en það var ekki fyrr en ég flutti hingað suður sem ég áttaði mig á því hvað hann er mikil grenjuskjóða!
Góða nótt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.6.2007 | 01:03
06.06.
Ég er svo aldeilis hissa á sjálfri mér að hafa ekki minnst á afmælisdaginn hans Bubba Mortens á síðunni minni á sunnudaginn var en þá varð hann 51 árs. Ég sá ekkert minnst á þetta í fjölmiðlum eða annars staðar. Hvað er nú að þjóðinni, það fór ekki framhjá neinum þegar hann átti afmæli fyrir ári síðan. Þá varð hann auðvitað fimmtugur og hélt tónleika í Laugardalshöll, en það hefði bara átt að stimpla daginn inn hjá okkur öllum.
Allavega, innilega til hamingju með afmælið Bubbi, og hafðu það ætíð sem allra best.
Ég á afmæli þann 07.07.
Mér skilst að það verði brúðkaupsdagur ársins, en óteljandi pör hafa ákveðið að það verði lukkudagur lífsins og ætla að ganga í hjónaband þann dag. Vonandi reynist það virka vel fyrir sem flesta, nú ef ekki má alltaf gera fleiri atrennur á einhverjum öðrum dögum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.6.2007 | 23:46
Kötturinn og krakkinn
Þessi umræddi sonur minn, köllum hann Catman, hafði kötinn hjá sér á neðri hæðinni. Svo tókst honum, Catman sko, að ná sér í kærustu og flutti með henni í smápínulitla íbúð - og Köttsi flutti með.
En þegar þau, kærustuparið, hafa brugðið sér bæjarleið þá býr Köttsi hjá mér. Og núna eru þau á tveggja mánaða ferðalagi um Evrópu. Og Köttsi er búin að afplána helminginn að tímanum hjá mér og sonardóttur minni, henni Karitas Árnýju, sem er yfir sig hrifin af fyrirbærinu og reynir sem hún getur að halda á, toga í, tala við, æpa á, syngja fyrir og svo framvegis, til að tæla þetta mjúka og sakleysislega fyrirbæri upp í kjöltu sína. Hann hefur bara einu sinni glefsað í hana þegar honum ofbauð hvað hún var harðhent. Hún verður tveggja ára í september. Hún heilsar kettinum alltaf með kveðjunni Haaaaallllóóó..si! Sem þýðir Halló Kisi. Og heyrist örugglega upp í Breiðholt!
Börn og dýr passa svo yndislega vel saman. Og ömmur...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.6.2007 | 11:37
Bannað að bölva
Ég hef tekið út seinni færsluna frá því í gærkvöldi. Eftir að hafa sofið á gremjunni í nótt ákvað ég að það væri mér ekki sæmandi að bölva og ragna eins og togarasjóari.
Afsakið, þið sem lásuð!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2007 | 23:16
Til lukku kæru vinir!
Ég var í Þjóðleikhúsinu í kvöld. Þar sýndi Leikfélag Fljótsdalshéraðs "Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins", Listina að lifa eftir vinkonu mína Sigríði Láru Sigurjónsdóttur. Ég er stolt eins og hani á haug enda hefur mér alltaf þótt ég eiga svolítið í stelpunni. Og ekki spillti það fyrir að leikararnir frá Egilsstöðum fóru á kostum og gerðu beinskeyttum textanum verðug skil. Leikstjórn Odds Bjarna var heldur ekki til að skemma fyrir Sviðslausnir voru margar hverjar glimrandi og gaman að sjá hve leikararnir virkuðu afslappaðir í sýningunni, þótt ég viti að álagið hefur verið ótrúlegt.
Til hamingju elsku Sigga Lára mín, Oddur Bjarni, Unnur, Þráinn, Oddný og Eygló. Og þið öll á bak við tjöldin sem ég veit ekki nöfnin á. Húrra fyrir ykkur!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.6.2007 | 23:31
Þrír og hálfur mánuður :-)
Ég hitti reyklausa hópinn minn úr Hveragerði í gærkvöldi. Það var alveg ótrúlega gefandi. Við erum víst bara 4 af 9 sem höfum verið reyklaus allan tímann, eða frá 25. febrúar. Ein er þó hætt aftur en komst ekki í hittinginn, það eru 3 vikur síðan hún ákvað að eyðileggja ekki allt sem búið var að ganga á með innritun á stofnun og alles.
Það kom mér á óvart að a.m.k. tveir úr hópnum hafa áður farið í áfengis- og/eða vímuefna meðferð/ir. Þau sögðu ekki frá þessu í Hveragerði. Ég veit ekki, kannski er ekki hamrað nóg á því þar að þú ert komin á botninn, þú hvorki getur eða mátt halda áfram að reykja, ef þú gerir það er voðinn vís. Sem hann er - trúið mér. Fólkið sem um ræðir er allt á miðjum aldri og eldra, frá 45 til 62.
Ég var að lesa grein í mbl í dag þar sem greint er frá rannsókn á lungnavirkni einstaklinga á Íslandinu góða. Þátttakendur í rannsókninni voru 40 ára og eldri. Þar kom berlega í ljós að íslenskar konur eru útsettari fyrir lungnaþembu en samlandar af karlkyni, ástæðan er talin vera sú að við konur þolum verr eituráhrif sígarettunnar en þeir. Veit ekki meir um það.
Ég er fór í hádeginu á veitingastað með vinkonu minni (hún er nýfarin að reykja aftur eftir a.m.k. 5 ára stopp), ég byrjaði á að spyrja hana hvort hún vildi sitja í reyk- eða reyklausu, mundi þá snarlega að hún átti ekkert val, nú var reyklaust alls staðar. Ég hefði sennilega orðið grautfúl fyrir ekki svo löngu síðan. Í dag var ég glöð
Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 18:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.6.2007 | 22:42
Einn góður fyrir svefninn!
Kona nokkur hélt fram hjá manni sínum á daginn meðan hann var í vinnu.
Dag einn er konan í rúminu með elskhuganum þegar húsbóndinn á heimilinu kemur óvænt akandi heim að húsinu. Konunni brá að sjálfsögðu í brún og skipar elskhuganum að grípa fötin sín og hoppa út um gluggann.
Elskhuginn lítur út um gluggann og segist ekki geta farið út því það sé grenjandi rigning. Ef maðurinn minn sér okkur hérna drepur hann okkur bæði, segir konan. Elskhuginn hefur því engin önnur ráð en að hoppa út um gluggann og hraða sér á brott frá húsinu.
Þegar hann kemur út á götu lendir hann í flasinu á hóp af skokkurum. Hann ákveður að slást hópinn þótt hann sé nakinn því hann vill komast óséður frá húsinu.
Hinum hlaupurunum var að sjálfsögðu starsýnt á nakta manninn og einn þeirra spurði hvort hann hlypi alltaf nakinn. "Já," sagði hann, "það er svo notalegt að láta ferskt loftið leika um hann meðan maður er að hlaupa." "En hleypur þú alltaf með fötin undir hendinni?" spurði skokkarinn. "Já, svo ég geti klætt mig þegar ég er búinn að hlaupa, áður en ég tek strætó heim," sagði sá nakti.
"En hleypur þú alltaf með smokk?" spurði hlauparinn. "Nei, nei, bara þegar það er rigning!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)