Undirbúningur hafinn

Ég hef fylgst vandlega með kranamanninum í dag og hef komist að ýmsu. Hann er um fertugt, rakaður skalli og ekkert yfirskegg = ekki Pólverji, sennilega bara Íslendingur.

Ég sá hann fara niður þessa 100 metra eða hvað það nú er úr krananum og niður á fast land og það virtist létt verk og löðurmannlegt. Hann skokkaði svo upp brekkuna (upp úr holunni) eins og unglamb, en það eru svona 50 metrar upp á við.  Hann er greinilega vel á sig kominn.

Á morgun ætla ég að sýna ykkur mynd af vinnustaðnum hans. Séð útum baðherbergisgluggann minn.

Þarf að fá mér góðan kíki ... W00t

Er annars upptekin við fegrunaraðgerðir sem virka úr fjarskanum Woundering


Ylfa dóni

Ég hef fengið fullt af hugmyndum í hausinn eftir komment Ylfu vinkonu minnar við síðustu bloggfærslu minni. Nú þarf ég að drífa mig og kaupa brúnkuklúta eða brúnkuspray, eitthvað sem eyðir appelsínu- og eplahúð, mig vantar líka augnabrúnalit og sterkan maskara, rauður kinnalitur gæti líka virkað úr fjarska (ég á svoleiðis litan varalit). Ég þarf ekki að hafa fyrir því að kaupa ilmvötn eða mjúksmurning því allt verður þetta strippsjó frá mínum eigin baðherbergisglugga. 

Gæti þetta verið ólöglegt? Hvað veit maður eftir að vændi hefur verið gert löglegt? Ég er bara að hugsa um svona "fjarsjó" fyrir einmana kranamann ... kannski bara Pólverja ... Bandit

Eða hvað ... ? 


Sæti kranamaðurinn

Í síðustu færslu minnist ég á að ég hafi komið mér upp þeim vana að horfa ekki yfir götuna og láta þar með eins og allt sé eðlilegt heima hjá mér. En ég gleymdi einu, mjög athyglisverðu; kranamanninum!

Þegar ég stend við eldhúsvaskinn (sem er staðsettur í borði beint fyrir innan eldhúsgluggann) þá blasa við sjónum tveir risastórir kranar, þessir gulu sem alls staðar standa við vinnusvæði. Annar er fjær og kemur ekki meira við sögu. Húsið á þessum sem er nær, sem kranamaðurinn situr inní, ber hins vegar akkúrat við sjónum og ég sé að þar situr, dagana langa, fjallmyndarlegur maður sem hefur oftast nær ekkert annað að gera en að horfa inn um gluggann hjá mér. Sem er allt í lagi í eldhúsinu, jafnvel bara gaman.

En það vill svo til að við hliðina á eldhúsinu er baðherbergið. Þar er gluggi hátt á vegg, gardínulaus, og húsið á krananum innrammast í gluggakarminum. Ég sé kranamanninn það vel að ég sé hvort hann er með bera handleggi eða ekki. Þá hlýtur hann að sjá ansi vel inn til mín, eða það hef ég alla vega á tilfinningunni Blush  Ég reyni að halda mig til hlés, kveikja ekki ljós og vera vel klædd þegar því verður við komið. En, þetta er jú baðherbergi og þar er oft á tíðum jafnvel nauðsynlegt að vera alveg án fata. Ég veit að manninum hlýtur að leiðast þarna uppi og sennilega hefur hann ekki margt sér til afþreyingar svo ég ætti náttúrlega ekki að láta eins og pempía. En ég get ekki af því gert að finnast mínu prívati svolítið ógnað. Ekki nóg samt til að ég fái mér gardínur Whistling


Dásamlegir dagar

Ég er búin að hafa það svooooo gott það sem af er fríinu. Fyrstu tveir dagarnir fóru reyndar í að snúast í hringi í kring um sjálfa mig eins og venjulega þegar ég byrja í fríi, ég veit ekki í hvorn fótinn ég á að stíga svo ég bara snýst og snýst ...

En svo naut ég helgarinnar með fjölskyldunni, borðaði með þeim af afkomendunum sem eru á landinu og við Karítas Árný áttum góðar stundir saman, labbitúra og lúll, sögur og söngva. Hún er einstaklega skapgott og glaðvært barn og okkur kemur ákaflega vel saman.

Ég ákvað að nenna ekki lengur að vera í fýlu út af framkvæmdunum hinu megin við götuna en reyna þess í stað að njóta þess sem þessi frábæri staður hefur upp á að bjóða. Í gær og í dag hreinsaði ég svo lóðina í kring um húsið, setti upp borð og stóla í garðinum, keypti sumarblóm á svalirnar, þvoði gluggana og reyndi að skola köngulærnar í burtu í leiðinni (án árangurs Angry ), fór með flöskur og dósir í endurvinnsluna, hreinsaði upp megnið af sígarettustubbunum í innkeyrslunni og þvoði meir að segja útidyrahurðina. Hinir elskulegu starfsmenn Eyktar komu svo eftir hádegi í dag og fjarlægðu allan garðaúrganginn, en eins og þið flest vitið þá erum við hér í húsinu ekki í vegasambandi við umheiminn þessa mánuðina. 

Það er búið að vera svo dásamlega rólegt yfir "holunni" frá því á föstudaginn. Ég er farin að hafa það fyrir reglu að horfa ekki í þá áttina, þá get ég látið eins og allt sé "eins og það á að vera". Ég get sofið til hádegis ef ég vil og horft yfir mitt nánasta umhverfi svo snyrtilegt að ég bara dæsi af vellíðan.

Svo er veðrið náttúrlega búið að vera "bara geggjað" W00t


Léttfætti kostgangarinn tékkaði út í dag

Hann var búinn að vera hjá mér í fæði og húsnæði í rúma tvo mánuði. Hann kom og fór að vild, aldeilis sama hvort var að nóttu eða degi. Hann fékk reyndar aldrei húslykil og borgaði engan reikning í dvalarlok. Hann tók sér það bessaleyfi að skríða uppí til mín á nóttunni ef honum sýndist svo, hann þvældist fyrir löppunum á mér ef hann langaði í eitthvað að borða og hann stökk uppá eldhúsborð í tíma og ótíma ef hann grunaði að eitthvað matarkyns myndi rata til hans ef hann væri nógu ýtinn og leiðinlegur. Svo skildi hann eftir sig hár út um allt.

Ég er auðvitað að tala um köttinn hans Kidda, hann Kristófer Kólumbus, kallaðan Köttsa.

Kiddi og kærastan, hún Kristrún, eru sem sagt loksins kominn heim úr interrail-ferðinni, heil á húfi og reynslunni ríkari. Guði sé lof! Þau enduðu annars góða ferð á Hróaskelduhátíðinni áður en þau komu heim eftir að hafa týnt þar ýmsu (s.s. sitt hvoru skóparinu, hníf o.fl.) í leðjuna. En allt sem máli skipti skilaði sér heim. 

Ég reikna með að Karítas Árný verði smá stund að venjast því að það býr ekki lengur nein kisa hjá ömmu. Hún var farin að tala svo skemmtilega við köttinn uppá það síðasta. Í fyrradag bjuggum við t.d. til sögu um köttinn þar sem hann fór og kannaði ókunn lönd en skilaði sér svo heim til ömmu í lokin. Þá sagði sú stutta: Jæja kisa mín, nú skaltu loka augunum þínum og fara að sofa. Þetta var reyndar ekki alveg svona skýrt hjá henni í framburðinum, en hún verður heldur ekki tveggja ára fyrr en um miðjan september. En það er nýtt hjá henni að tala í löngum setningum.

Hún er náttúrlega bráðgáfuð og fljót til eins og öll hennar ætt Wink


Frí og ferðalög

Á morgun ætla ég að byrja í 10 daga sumarfríi. Verð bara heima hjá "holunni" minni og nýt lífsins í sól og sumaryl Cool

Við systkinin ætlum að undirbúa áttræðisafmæli mömmu, við hyggjumst að halda uppá það með henni laugardaginn 21. júlí. Hún á í raun afmæli 27.07.07, sem er næstum því jafn flottur afmælisdagur og minn í ár.

Svo skellur á með ferðalögum yfir hálfan hnöttinn en þann 25. júlí legg ég af stað til Suður-Kóreu með viðkomu í Peking á heimleiðinni. Það er mjög spennandi og örugglega eitthvað sem ég á ekki eftir að gera aftur í þessu lífi. Vonandi lendi ég ekki á veitingahúsum þar sem kokkarnir djúpsteikja aftari hluta fiskanna lifandi og bera síðan greyin gapandi á borð fyrir gestina, þakta í súrsætri sósu. Þetta sá ég í fréttum sjónvarpsins í gær og kúgaðist yfir. Það var reyndar kokkur frá Taílandi sem var svona ákafur í að sýna gestum sínum hvað maturinn hjá honum væri ferskur. Oj, bara og svei attan!

Hrefna og Valgeir, innilega takk fyrir komuna í gærkvöldi. Það var frábært að fá ykkur í heimsókn. Ég er reyndar svo mikill blábjáni að ég gleymdi að bjóða ykkur kökuna sem ég átti í ísskápnum en það hafði ég svo sannarlega hugsað mér að gera. Ég kann ekki greinilega ekki lengur að taka á móti gestum, fuss og svei! Hvernig verð ég sjötug?

Ég hugsa að það verði frekar mikil ró yfir blogginu mínu næstu daga, en ég sé mig bara í anda sitja úti á svölum í sólinni með kalt hvítvín í glasi, gluggandi í bók Whistling

Njótið lífsins í góða veðrinu Heart


Nú er ég hneyksluð!

Voru það tæknileg mistök konunnar að öskra ekki? Og maðurinn, hann er sýknaður þótt sannað sé að um nauðgun er að ræða? Eru lögin okkar ónýt eða hvað er eiginlega á seyði í þessu landi? 


mbl.is Sýknaður af ákæru fyrir nauðgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrðleg tíð í dapurlegu umhverfi

Mikið er skrítið að búa á Íslandi þegar veðrið hagar sér eins og það hefur gert undanfarna daga. Ég kann varla á að vera að vinna í svona blíðu, venjulega er ég í fríi í útlöndum þegar svoleiðis er og get sest í skuggann og fengið mér svaladrykk í tíma og ótíma á rölti mínu um ókunnar slóðir. En hér heima er ég lokuð inni í hitasvækju lungann úr deginum eða að erindast um borgina á bílnum sem er eins og bakarofn í sólinni. En þetta er auðvitað dásamlegt!

Það væri þó enn dásamlegra ef ég gæti fengið að njóta þess að spóka mig í garðinum mínum eða á svölunum þegar heim er komið. En það veitir mér enga ánægju að vera þar í ryki og hávaða frá byggingaframkvæmdunum í "holunni" andspænis húsinu mínu við Höfðatúnið. Bara tilhugsunin um að þessar jarðvegsframkvæmdir skuli eiga að taka næstu 3 árin koma mér næstum til að gráta. Ég gæti verið dauð þegar þessu lýkur og hvar er þá gróðinn af því að "eiga eign á besta stað í bænum"?

Ég verð alltaf svo fjúkandi reið þegar ég leyfi mér að hugsa um þetta svo það er best að stoppa, núna.

Njótið dagsins!

Gaman hjá mér

Þetta var góð helgi. Ég hef ekki hlegið svona mikið lengi. Við skólasysturnar erum svooooo skemmtilegar þegar við erum saman að það hálfa væri jafnvel nóg. Við erum svo afslappaðar gagnvart hvorri annarri að hvað sem er fær að fjúka. 

Það var enn verið að vinna við sumarbústaðinn þegar við komum á staðinn. Það fyrsta sem ég tók eftir var að skurðgrafa og jarðýta voru að moka og ýta jarðveginum fyrir framan húsið og ég hugsaði; ó nei, ekki vinnuvélar hér líka Crying  En sem betur fer lauk verkinu á ríflega klukkustund, eftir það sáust vélarnar ekki meir. En jarðraskið hafði vakið milljónir af mýflugum til lífsins og þær voru vel vakandi alla helgina, bítandi hvað sem fyrir var. Flestir voru illa bitnir, ég var ein af fáum sem slapp í þetta sinn. Við létum það þó ekki spilla gleðinni.

Takk fyrir samveruna kæru vinir!


Helgarflakk

Ég er að fara útúr bænum á eftir, þriðju helgina í röð. Nú er ferðinni heitið að Búrfelli með gömlum skólasystrum og mökum þeirra. Þar munum við gista í glænýjum sumarbústað, hann er svo nýr að við verðum fyrstu gestirnir sem þar fá að búa. Veðurspáin er ljómandi góð og tilhlökkun í loftinu. Við ætlum að veiða, borða, drekka, syngja og bara vera saman. Það er aldrei leiðinlegt í þessum félagsskap.

Um síðustu helgi fór ég með Önnu systur minni og Arnari Má, syni hennar, í hjólhýsi sem þau hjónin eiga og staðsett er að Hellishólum í Fljótshlíðinni. Ótrúlega flott hús með allri aðstöðu. Það var fjölmennt á tjaldstæðunum þegar okkar bar að garði á föstudagskvöldinu, en allir glaðir og prúðir. Það fækkaði heldur á laugardeginum. Þá um kvöldið var fyrirhugað að kveikja í Jónsmessubrennu en hætt var við tiltækið vegna roks. Þá um daginn höfðum við séð moldrokið sem stóð af landinu og stefndi til hafs, það var ömurlegt. Ég segi eins og Herdís Þorvaldsdóttir, leikkona og Grímuverðlaunahafi, það verður að gera meira í að binda jarðveginn á þessu landi áður en hann fýkur allur í sjóinn. En við systurnar höfðum það ákaflega gott þessa helgi og vorum löngu komnar heim þegar bílalestin fór að myndast seinnipart sunnudagsins.

Helgina 16.–17. júní fór ég svo norður í Svarfaðardal til að vera viðstödd lokadag Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga og skólaslit. Það var í stuttu máli sagt frábært. Það er alltaf jafn dásamlegt að verða vitni að þeirri ótrúlegu sköpun sem á sér stað í þessum skóla, sem nú hefur starfað í 11 ár. Sjá: http://www.leiklist.is/index.php?option=com_content&task=view&id=798&Itemid=101

Kæru bloggvinir, sjáumst á sunnudagskvöld, góðar stundir þangað til.



« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband