Helgarflakk

Ég er að fara útúr bænum á eftir, þriðju helgina í röð. Nú er ferðinni heitið að Búrfelli með gömlum skólasystrum og mökum þeirra. Þar munum við gista í glænýjum sumarbústað, hann er svo nýr að við verðum fyrstu gestirnir sem þar fá að búa. Veðurspáin er ljómandi góð og tilhlökkun í loftinu. Við ætlum að veiða, borða, drekka, syngja og bara vera saman. Það er aldrei leiðinlegt í þessum félagsskap.

Um síðustu helgi fór ég með Önnu systur minni og Arnari Má, syni hennar, í hjólhýsi sem þau hjónin eiga og staðsett er að Hellishólum í Fljótshlíðinni. Ótrúlega flott hús með allri aðstöðu. Það var fjölmennt á tjaldstæðunum þegar okkar bar að garði á föstudagskvöldinu, en allir glaðir og prúðir. Það fækkaði heldur á laugardeginum. Þá um kvöldið var fyrirhugað að kveikja í Jónsmessubrennu en hætt var við tiltækið vegna roks. Þá um daginn höfðum við séð moldrokið sem stóð af landinu og stefndi til hafs, það var ömurlegt. Ég segi eins og Herdís Þorvaldsdóttir, leikkona og Grímuverðlaunahafi, það verður að gera meira í að binda jarðveginn á þessu landi áður en hann fýkur allur í sjóinn. En við systurnar höfðum það ákaflega gott þessa helgi og vorum löngu komnar heim þegar bílalestin fór að myndast seinnipart sunnudagsins.

Helgina 16.–17. júní fór ég svo norður í Svarfaðardal til að vera viðstödd lokadag Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga og skólaslit. Það var í stuttu máli sagt frábært. Það er alltaf jafn dásamlegt að verða vitni að þeirri ótrúlegu sköpun sem á sér stað í þessum skóla, sem nú hefur starfað í 11 ár. Sjá: http://www.leiklist.is/index.php?option=com_content&task=view&id=798&Itemid=101

Kæru bloggvinir, sjáumst á sunnudagskvöld, góðar stundir þangað til.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband