Nú veit ég hvernig Stekkjastaur líður

Hef ekki getað bloggað síðan á laugardag vegna harðsperra í kálfunum. Nei, djók, auðvitað blogga ég ekki með tánum! En harðsperrur í kálfum eftir stigahlaupin á laugardaginn eru ekkert djók skal ég segja ykkur. Á sunnudagsmorguninn þegar ég vaknaði og ætlaði að standa upp tók svo í kálfana að ég hrundi afturábak í rúmið og varð að byrja aftur, mjög varlega. Þegar ég var loksins staðin upp og reyndi að ganga af stað var ég eins og gamalmenni. Eða kannski eins og vesalings Stekkjastaur sem hafði staurfætur og átti erfitt með smáviðvik svo sem eins og að sjúga ær, ekki að ég hafi endilega ætlað að leika það eftir ...

Í gær átti ég erfitt með að ganga niður stiga en í dag er allt gott og hægt að fara aftur í pínerí þess vegna.

Ræktin

Ég tek aftur umsögn mína hér að neðan um jógakennarann - núna þegar ég er búin að kynnast virkilegum, raunverulegum satista. Fór í morgun í tíma sem heitir Kviðbani, þar var sko aldeilis tekið á og rekið á eftir hlussum eins og mér. Sú sem stjórnaði (talaði sæmilega íslensku) leit út eins og þýsk fraulein og gargaði eins og vélbyssa: áfram stelpur, þið þakka mér seinna, bölva mér núna, kannski lemja mig á leiðinni út! Og svo hló hún hátt og skipaði manni að hlaupa upp og niður stigana aftur og aftur en gera æfingar á palli með lóðum þess á milli. Sjúkk, ég hélt ég myndi ekki lifa þetta af!

En núna, þrem tímum síðar, líður mér stórkostlega. Á venjulegum laugardegi fyrir svona þrem vikum síðan hefði ég nefnilega legið í rúminu til hádegis, lesandi blöðin og reykjandi eins og kolavél.

Halelúja!


Eiríkur er flottastur

Þá er ég loks búin að sjá myndbandið með framlagi okkar Íslendinga til Evrovision söngvakeppninnar í ár.

Myndbandið er flott, til hamingju Gunnar Björn, og Eiríkur er æðislegur. Karlmannlegur leðurtöffari með ljónsmakka á besta aldri, með frábæra rödd að syngja ágætis lag, í fallegum bíl í enn fallegra landslagi og geggjuðu skýjafari -  hvað viljum við hafa það betra?

Ég ætla samt að láta það vera að segja að nú sé komið að því að við vinnum þessa keppni en ég má hundur heita ef við komumst ekki upp úr undankeppninni!


Pyntingar til góðs?

Nýjum lífsstíl fylgir ýmislegt. Eins og til dæmis það að þegar svona sófakartafla eins og ég fer að stunda einhvers konar líkamsþjálfun kemur ýmislegt á óvart. Bæði það að þrátt fyrir stífar reykingar og lágmarks hreyfingu undanfarin ár er ég bara í þokkalegu formi. En líka það að æfingar, sem virðist svo ógnar auðvelt að gera þegar maður horfir á aðra, geta reynst hreinustu pyntingar þegar maður reynir að gera þær sjálfur.

Ég hélt að ég væri í frekar góðum málum þegar ég valdi að fara í jógaleikfimi en það kom á daginn að kennarinn er satisti af verstu gerð. Hún talar lágt og blíðlega um að fara með hendina hingað og fótinn þangað, snúa svo upp á hrygginn og halda stellingunni heila eilífð. Svo talar hún mjúkum rómi um að maður skuli senda ljós þangað sem tekur í - þegar maður á fullt í fangi með að halda jafnvægi og er að reyna að sýnast svellkaldur og klár er eitthvað ljóskjaftæði ekki alveg að virka.

En ég trúi því að þótt það sé vont þá geri það mér gott. Alveg eins og þegar ég var barn og þurfti að taka matskeið af lýsi á hverjum morgni sem ég ropaði svo upp til hádegis, það var svo óendanlega gott fyrir mig, sagði mamma. Hún sagði það líka á haustin þegar hún tróð mér í ullarbol sem mig klæjaði undan allan veturinn, hann varð að vera innst klæða annars virkaði galdurinn ekki. Ég trúði og píndist, kannski hef ég náð þessum háa aldri þess vegna?

Takk mamma mín.

Geðvonska

Ég hef verið óvenju geðvond upp á síðkastið og látið flest fara í mínar fínt følende nikótínlausu taugar. Dæmi: veðrið, flest fólk sem ég hitti, öll fötin mín, að þurfa alltaf að vera að borða eitthvað og síðast en ekki síst, ég sjálf. Þetta er óskemmtilegur fjandi og gengur vonandi yfir fljótlega.

Ég hef haft mikið að gera og lítið mátt vera að því að lesa, en Sendiherrann hans Braga Ólafssonar er þó ljós í geðvonsku-myrkrinu. Hann skrifar aldeilis stórskemmtilega um fjandann ekki neitt, ég er komin vel aftur fyrir hálfa bók og enn leikur frakkinn stórt hlutverk (sjá næst síðustu færslu). Honum er stolið á veitingahúsi en skáldið gerir sér þá lítið fyrir og stelur öðrum jafn flottum frakka á öðru veitingahúsi. Nú er skáldið sem sagt komið til Litháen þar sem flest fer úrskeiðis sem úrskeiðis getur farið.

Það gefur sögunni aukið gildi fyrir mig að ég bjó á sama hóteli og skáldið er látið búa á þegar ég var í Viliníus seint á síðasta ári. Bragi lýsir herbergjum hótelsins, þjónustu, kaffiteríu og umhverfi þannig að ég anda ofaní hálsmálið á  skáldinu þegar hann situr kyrr en fylgi honum hvert fótmál á rápi hans um kunnuglega borgina. Ég fæ mér í huganum bjór og skot (ekki þó sígarettu, meðvituð ákvörðun ;-) með honum á börunum en verð að ímynda mér hvernig kirsuberjaskotin sem hann virðist svo hrifinn af bragðast, því mér láðist að smakka svoleiðis þegar ég var þarna. Hann er aftur á móti ekki farinn að fá sér neitt Starka (þjóðardrykkur Litháa, minnir dálítið á bensín), en sá drykkur var í boði hjá gestgjöfum mínum frá því snemma á morgnana og þar til á háttatíma á kvöldin. Reynsla mín og fleiri Íslendinga mér nákomnum af þeim drykk er reyndar efni í góða sögu sem kannski verður sögð síðar. Eða ekki ...

 


Fækkar í hópnum

Ég var að koma af vikulegum fundi okkar í reyklausa hópnum. Við vorum 9 saman í prógramminu í Hveragerði en bara 6 sem ákváðum að hittast vikulega og brýna hvert annað til dáða. Í kvöld var annar fundurinn okkar og nú vorum við bara 5. Ein hafði fallið á föstudaginn og var ekki búin að vinna upp kjark til að drepa í aftur. Mér finnst það svolítið sorglegt því það sýnir hvað þetta er í raun viðkvæmt ástand þessar fyrstu vikur. En við hin vorum fjallhress og engan bilbug á okkur að finna þrátt fyrir ýmsa líkamlega kvilla sem stafa af nikótínskorti, s.s. munnangur, höfuðverkur, kvefeinkenni, magaverkur, harðlífi o.s.frv. Það er eins og líkaminn segi við mann að ef maður skaffar ekki nikótínskammtinn sem hann var vanur að fá þá skuli bresta á með öllum mögulegum óþægindum. Greyið kann ekki enn að lifa án eitursins sem orðið var svo ómissandi fyrir alla starfsemina og stendur bara í hótunum. En nú er bara ekki hlustað á eiturpúkann lengur, sorrý Stína.

Verst að ég missti af nýja evrovision-myndbandinu með Eiríki Haukssyni sem fumsýnt var í Kastljósinu í kvöld. Það á víst að höfða mjög til kvenna W00t. En það verður örugglega ekki langt að bíða endursýningar ..


Þögnin rofin

Ég hef verið ákaflega andlaus og frekar syfjuð síðustu daga og ekki fundið hjá mér þörf fyrir að setja neitt hér inn. En það náttúrlega gengur ekki lengur.

Ég er búin að lesa bæði The Third Brother og Paradís en var af hvorugri hrifin. Paradís stendur Stúdíói sex langt að baki að mínu mati og Þriðji bróðirinn finnst mér vera einhvers konar stílæfing sem gæti mögulega orðið að einhverju einhvern tímann seinna.

Byrjaði á Sendiherranum eftir Braga Ólafsson í gærkvöldi. Hann skrifar skemmtilega og ég er spennt fyrir sögunni. Hún byrjar á því að ljóðskáld á miðjum aldri kaupir sér léttfóðraðan rykfrakka fyrir 13 fimmþúsundkalla í herrafataverslun í Bankastrætinu og fer svo í heimsókn til pabba síns sem býr einn á Skólavörðustígnum. Á leiðinni bæði rignir og snjóar á nýja frakkann en ljóðskáldið hefur klætt sig í frakkann í búðinni og sett úlpuna sína í plastpoka. Heima hjá pabba kemur upp úr dúrnum að ljóðskáldið, sem er á leið til Litháen á skáldastefnu, hefur ákveðið að hætta að vera ljóðskáld en skrifa í staðinn prósa. Spennandi, ekki satt?

Ég fékk mér stutta heilsubótargöngu í hádeginu og svei mér þá ef það er ekki vor í lofti!

Góða helgi, þið sem rekist hér inn.

 


Bóklestur fyrir bí?

Glöggir lesendur hafa kannski tekið eftir því að hér hefur ekki verið fjallað um eina einustu bók í langan tíma. Síðast var ég að byrja á The Third Brother, ég er enn að lesa hana. Lagði hana reyndar frá mér á hælinu, þar sem letrið er svo smátt og lýsingin í herberginu mínu var svo dauf. Byrjaði þá á Paradís eftir Lizu Marklund. Er svona hálfnuð með hana. Hún er beint framhald af Stúdíói sex en svo sem ekkert spennandi enn sem komið er.

Ég fór með fullan poka af bókum á hælið, hélt ég myndi lesa og lesa. En raunin varð sú sem að ofan er lýst. Kannski gekk lestrar-áhuginn fyrir nikótíni öll þessi ár?

Borðaði kjöt í kvöld í fyrsta skipti í heila viku. Hafði það kjúkling til að ofbjóða ekki meltingarfærunum eftir baunir og grænmeti liðinnar viku. Matur bragðast öðruvísi núna, það finnst mér spennandi.


Döðlur og jarðarber

Ég má til með að miðla til ykkar einni uppskrift sem ég fékk á hælinu. Einfaldara getur það ekki verið.

Jarðarberjasulta

150 gr. frosin jarðarber

100 gr. döðlur

Allt hitað saman í potti, maukað og kælt.

Þessi sulta er án viðbætts sykurs og bragðast mjög vel með t.d. hrökkbrauði. Þið sjáið hvert þetta stefnir, er það ekki?

 


Nýtt líf, dagur 5

Í reykleysishópnum mínum er mikil samstaða. Við peppum hvert annað upp og sláum hvert öðru gullhamra hægri vinstri svo allir eru alltaf glaðir og ánægðir með sig og sinn árangur. Við ætlum að halda þessu áfram eftir að við sleppum út af hælinu og hittast einu sinni í viku og ganga saman. Það verður visst aðhald því enginn vill vera fyrstur til að falla utan múra.

Það kom í ljós í morgun að eiginlegri dagskrá lýkur upp úr hádegi á morgun, ekki á sunnudag eins og við héldum. Við megum vera til sunnudags ef við viljum en ég held að allir ætli bara heim á morgun.  

Í kvöld ætlar allur hópurinn minn út að borða á veitingastaðnum Rauða húsið, sem ku vera reyklaust. Þetta verður í fyrsta sinn sem við förum sjálfviljug á slíkan stað.

Spennandi.

Hér lýkur skrifum undir fyrirsögninni Nýtt líf og ekki verður fjallað sérstaklega um reykingar á þessari síðu framvegis.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband