19.12.2007 | 12:07
Jólin
Þetta er sérkennilegur árstími. Flestir stefna að sama marki, þ.e. að hafa það sem allra huggulegast yfir jólahátíðarnar - með öllum ráðum. Mér finnst mikilvægast að hitta fólkið mitt og þá allra helst börnin mín og barnabörnin. Það tekst alls ekki alltaf hin seinni ár þar sem dóttir mín hefur verið búsett í Danmörku sl. 12 ár og heldur þar oftast jól með sinni fjölskyldu. Hún var þó hér um helgina í stuttri heimsókn og þá notaði ég tækifærið og fékk öll systkynin ásamt sambýlingum í sannkallaðan jólamat á mánudagskvöldið. Reyndar voru bara 2 af barnabörnunum á landinu og þar af var annað lasið svo yngsti sonur dóttur minnar var eini skemmtikrafturinn í veislunni. Hann sinnti þó skyldum sínum af stakri natni, það verður að segjast.
Meðfylgjandi mynd er af öllum börnunum mínum, talið frá vinstri í aldursröð; Hrönn, Valgeir, Sturla og Kristinn. Takk fyrir yndislegt kvöld elskurnar mínar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.12.2007 | 11:10
Aðeins 14% af heiminum
Ég fann kort á síðunni hennar Berglindar sem sýnir hversu stóran part af jarðkringlunni maður hefur heimsótt. Þegar búið er að haka við öll löndin sem maður hefur komið til verður til kort sem sýnir með rauðu hvert þú hefur farið. Mitt lítur svona út, 32 lönd heimsótt en það eru aðeins 14% af löndum jarðarinnar okkar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.12.2007 | 10:48
Næturvaktin
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2007 | 10:12
Forvitnilegur draumur
Þá finnst mér sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og konan hans komi og fari með okkur heim til sín. Þau segja að þar sem ég sé nú dóttir þeirra sé sjálfsagt að við búum hjá þeim meðan okkar húsnæðismál séu í óefni. Við löbbuðum með þeim heim til þeirra, en þau bjuggu bara í næstu götu. Gengið var inn frá götunni en síðan farið upp um nokkrar hæðir. Segir nú ekki meir af fjölskyldu minni (þ.e.a.s. manni og börnum, þau týndust einhvers staðar á leiðinni upp) en mér er boðið sæti við eldhúsborðið og eru boðnar einhverjar veitingar. Mér finnst ég sitja upp við vegg í eldhúsinu sem ég finn að hallast lítið eitt og ég spyr mömmu hvort hún sé ekkert á taugum yfir því að hafa vegginn svona. Hún brosir og býður mér að skoða þetta nánar og þá kemur í ljós að hægt er að fara út um dyr á eldhúsveggnum hallandi og þegar út er komið stendur maður á klöpp, eins og húsið sé byggt inn í fjall og bara framhliðin sem snýr að götunni (og við komum inn um) sé viðbót við byggingarefni sjálfrar náttúrunnar. Þetta virkaði mjög traust og ég fann að ekkert myndi granda þessu húsi. Það kom að háttatíma og mér var boðið að sofa inn af herbergi þeirra hjóna sem bæði kysstu mig (dóttir sína) góða nótt. Ég sofnaði með þá tilfinningu að allt yrði í lagi, pabbi myndi bjarga mínum málum.
Svona var nú það.
Eru ekki einhverjir draumspakir þarna úti sem geta ráðið drauma?
Það skal tekið fram að ég hef hvorki hitt borgarstjórann né konuna hans, bara séð þau í sjónvarpinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
8.11.2007 | 15:47
Heimajóga
Ég rakst á yndislegt myndband á netflakki áðan og má til með að setja tengil á það hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.11.2007 | 11:40
Hressir iðnaðarmenn
Ég er í vinnunni og hjá mér eru 3 iðnaðarmenn að skipta um rúðu. Skrifstofan mín er á annarri hæð við Laugaveginn. Einhver óprúttinn skemmdarvargur henti fyrir nokkru stórum steini innum rúðuna og braut í hana snyrtilegt gat sem límt hefur verið fyrir síðan. En nú er sem sagt komið að því að skipta um. Iðnaðarmennirnir umræddu eru hressir og kátir, tveir þeirra eru snemma á þrítugsaldrinum, hér eftir kallaðir strákur 1 og strákur 2, en sá þriðji er myndarlegur maður á mínum aldri sem við getum kallað Manninn. Eftirfarandi samtal átti sér stað áðan:
Strákur 1 við Manninn: Hvernig er það með þig, detta ekki mörg númer út úr símanum hjá þér á hverju ári?
Maðurinn: Hvað meinarðu, detta út hvernig?
Strákur 1: Jú, er ekki þín kynslóð smátt og smátt að hverfa?
Maðurinn: Ég skil ekki um hvað þú ert að tala.
Strákur 2: Þú ert alltaf í jarðarförum, eru ekki allir vinir þínir að drepast sem eru orðnir svona gamlir eins og þú?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.10.2007 | 16:22
Þann 25. október 1927
fæddist hann pabbi minn og hefði hann því orðið áttræður í gær ef hann hefði lifað, alveg eins og dásemdar-söngkonan hún Ingibjörg Þorbergs. Við systkinin, sex talsins, ákváðum að hittast í tilefni dagsins og borða saman súpu. Sem við og gerðum en okkur til mikillar undrunar og ánægju kom mamma líka, alla leið að norðan. Við rifjuðum upp gamla daga og sögðum sögur af samferðafólkinu sem margt var frekar skrautlegt á okkar tíma mælikvarða.
Pabbi var oft hrókur alls fagnaðar og átti það til að yrkja þannig að tekið var eftir. Þessi er t.d. fræg:
Fögur er hún Seyðisá
séð af brúnni.
Hvaða brú er það nú þá?
Það er brúin jamm og já.
Þegar þetta var ort var enn ekki komin brú yfir Seyðisá.
Myndin hér að ofan var tekin af okkur systkinunum og mömmu á áttræðisafmælinu hennar í sumar. Takk fyrir samveruna í gær mín kæra fjölskylda.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.10.2007 | 15:25
Helgin var góð ...
... og nú er bara að koma önnur! Voðalega líður tíminn! Maður verður kominn undir græna torfu áður en við er litið og fattar ekki neitt ...
Framundan er samvera með fjölskyldunni minni á fimmtudagskvöldið og svo verður lítil ömmustelpa mér og föður sínum til yndisauka um helgina. Þyrfti kannski að skúra ... í kvöld þá ... ef ég nenni
Þegar veðrið lætur eins og núna er miklu meira freistandi að kúra bara fyrir framan sjónvarpið, allt er svo dimmt og drungalegt. Skíturinn meir að segja ósýnilegur - eða þannig ...
Veit ekki hvort ég á venja mig á að skrifa svona algjörlega tilgangslausar færslur á þetta blogg - ætla að hugsa málið.
Hafið það sem best kæru lesendur og mikið væri gaman ef þið vilduð kvitta fyrir komuna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.10.2007 | 13:55
Erðanú bloggari!
Ég er auðvitað löngu komin heim frá Tyrklandi, meir að segja búin að eyða viku í Litháen síðan þá en ég er bara alveg dottin úr bloggstuði.
Það var dásamlegt í Tyrklandi, ég var eiginlega hálf sorgmædd að fara þaðan. Vika er allt of stutt. Muna það næst. Veðrið var frábært og félagsskapurinn líka - við slíkar aðstæður er von að tíminn fljúgi.
Ég var á leiklistarhátíð með Leikfélagi Selfoss í Litháen. Þar var heldur betur haldið á spöðunum; á tveim og hálfum sólarhring voru sýndar 10 leiksýningar, haldnar 3 leiksmiðjur, 2 umræðufundir, opnunar- og lokaathafnir afgreiddar og svo var samvera á kvöldin! Bara borðað og sofið þegar tími gafst til. Mikið sem var kalt inni í byggingunum þarna. Það er víst ekki skrúfað frá neinum hita inni fyrr en hitastigið úti er komið niður fyrir frostmark. En á meðan við stoppuðum rigndi látlaust og maður var alltaf hálf blautur og hrollkaldur. En Litháarnir tóku vel á móti okkur og þreyttust ekki á að gera vel við okkur. Þeir gleyma því ekki enn að við vorum fyrsta þjóðin til að viðurkenna sjálfstæði þeirra upp úr 1990.
Nú ætla ég að eyða helginni með vinkonum í sumarbústað, það verður örugglega jafn gaman og venjulega!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.9.2007 | 12:37
Erðanú amma!
Yngsta barnabarnið, hún Karítas Árný, verður tveggja ára á morgun og hvað haldið þið að þessi ljóta amma hennar ætli að gera þann sama dag? Jú, fara úr landi, einn ganginn enn, og mæta ekki í afmælisveisluna!
Fuss og svei!
Ég er reyndar búin að gefa henni afmælisgjöfina, það slær aðeins á samviskubitið. Annars verður örugglega svo mikið af skemmtilegu og góðu fólki í afmælinu að hún saknar mín ekkert. Eða þannig.
Þessi stóra stelpa byrjaði á leikskóla á mánudaginn og er bara hress og glöð með það. Hún er nú reyndar oftast hress og glöð með allt, skapgóð og ljúf sem hún er.
Til hamingju með daginn elsku ömmustelpan mín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)