Orðheppnir menn heilla mig

Ég var að lesa grein í Fréttablaðinu frá því í dag eftir Þorvald Gylfason sem hann nefnir Áttatíu ár: Ekki nóg? Þar rekur hann stjórnarsetu núverandi stjórnarflokka sem hann segir hafa setið í ríkisstjórnum ýmist á víxl eða báðir í einu í 80 ár samfleytt ef utanþingsstjórn 1942-44 og tvær skammlífar minnihlutastjórnir eru undanskildar. Þorvaldur rekur sig að þeirri niðurstöðu að ójöfnuður hafi aukist til muna á síðasta kjörtímabili en í stað þess að lofa bót og betrun bregði frambjóðendur stjórnarflokkana á það ráð að reyna að þræta og ljúga sig út úr vandanum.

Og í lokin segir Þorvaldur: Fólkið í landinu sér í gegn um lygavefinn. Frambjóðendur stjórnarflokkanna héldu líklega, að lygin gæti hlaupið hringinn í kringum landið áður en sannleikanum tækist að reima á sig skóna. Þeim varð ekki kápan úr því klæðinu. Það er góðs viti.

Flott orðað finnst ykkur ekki? 


Eins leiði annars gróði?

Ég og fjölskylda mín eigum sætt gamalt hús við mitt Höfðatúnið í Reykjavík.  Við erum búin að eiga það síðan seint á árinu 2002. Við erum búin að vera að dunda við að gera það upp og laga að okkar þörfum og það verk er langt á veg komið. Á  fallegum vordögum eins og í dag er hrein dásemd að setjast út á svalirnar að afloknum vinnudegi með dagblöðin og kaffibollann, halla sér letilega aftur í góðum stól og láta sólina verma fölbleikt vetrarskinnið.

Eða það hefur verið dásemd hingað til.

Í dag fann ég sprenginguna úr grunni Höfðatorgsins tilvonandi alla leið upp á Laugaveg og þegar ég kom heim var allt á tjá og tundri. Bob Marley (tveggja metra hár gíraffi frá Jamaica) hallaðist örvæntingarfullur upp að bókahillunni í stofunni, fallega blásaraveggklukkan mín frá Eistlandi hékk öfug á veggnum, allar myndir á veggjunum voru skakkar og hlutir í eldhúsinu verulega skakkir og skældir. Vatn lak úr ofninum í holinu og jafnvel inni á baðherbergi var ýmislegt úr skorðum. Rykið lá eins og þoka yfir húsi, svölum, garði, bíl og öllu nágrenninu. 15 metrum fyrir utan eldhúsgluggann voru 3 skurðgröfur að grafa og moka, skrapa klöppina, keyrandi fram og aftur, aftur og aftur og endalaust. Það er ekki hægt að opna glugga eða svaladyr vegna ryksins og hávaðans. Þegar gröfurnar voru enn að um áttaleytið gafst ég upp og flúði að heiman. Ég hreinlega þoldi ekki meir.

Hvernig á að vera hægt að búa við þetta í allt sumar, en það er tíminn sem þeir gefa sér bara í götuna? Svo maður tali hvorki né hugsi lengra fram í tímann Crying


Hvað á að kjósa?

Fann skemmtilegt próf á blogginu hennar Gurríar, ættað frá Háskólanum í Bifröst. Það er alveg skýrt að ég þarf ekki að velta fyrir mér lengur hverja ég á að kjósa en útkoman var svona þegar ég tók prófið:

Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 12.5%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 30%
Stuðningur við Samfylkinguna: 37.5%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 31.25%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 19%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 30%

Prófið er hér, prufið sjálf. 


Ónýtt heilbrigðiskerfi?

Í ljósi síðustu færslu langar mig til að vekja athygli á bloggsíðu Guðmundar Jónssonar, http://www.gjonsson.blog.is/ en þar segir hann heilbrigðiskerfinu stríð á hendur.

Þetta nær náttúrlega ekki nokkurri átt! 


Lyfjaverð á Íslandi

Ég hef verið svo heilsugóð til þessa að ég hef ekki getað verið með í umræðunni um hátt lyfjaverð hér á landi vegna vanþekkingar. Nú er ég aðeins búin að fá nasaþefinn af því hvað það kostar að nota heilbrigðiskerfið og þurfa að taka lyf. Og mér satt að segja blöskrar. Tveggja mánaða skammtur af Zybaninu sem mér hefur verið tíðrætt um (og gildir þá sennilega sama um ýmiss önnur geðlyf) kostar um 16.000 kr., mánaðarskammtur af magatöflum kostar hátt á fimmta þúsund og það kostar 10.000 kr. að fara í magaspeglun. Það er svei mér ekki fyrir neina fátæklinga að verða misdægurt hér á landi.

Miður mín, einu sinni enn!

Fjórða hvert ár á þessum árstíma er ég alveg miður mín. Ég get aldrei ákveðið hvað ég á að kjósa og árið í ár er engin undantekning. Mér hugnast svo illa hvernig pólitíkin er praktíseruð af frambjóðendum, það er alltaf sama sagan. Þeir upphefja sjálfa sig á kostnað hinna - allir sem einn. Sumir eru verri en aðrir eins og gengur en þarf þetta endilega að vera svona? Af hverju er aldrei hægt að hæla neinum eða a.m.k. láta vera að kasta skít þó tilefni gefist? Hvernig er hægt að kjósa fólk til æðstu embætta sem hagar sér eins og illa siðaðir leikskólakrakkar?

Og þetta er ekkert betra þegar kosningum er lokið og þingmenn komnir í vinnuna. Af hverju þarf það að vera lögmál að öll mál sem stjórnarandstaðan ber fram eru kæfð í fæðingu, jafnvel þótt hvert mannsbarn sjái að um þjóðþrifamál sé að ræða? Af hverju er það ekki skylda þessa fólks að vinna saman að góðum verkum, sama hver á hugmyndina? Ég skil ekki hvers vegna þetta hefur orðið svona.

Ég þori ekki að kjósa neinn, ég þori heldur ekki að sleppa því að kjósa. Hvað gera menn þá? 


Zyban, kostur og lestir

Vinir mínir hafa eflaust, eftir að hafa lesið síðustu færslur, haft af mér áhyggjur síðustu daga. Ég hef lýst slæmu heilsufari mínu og árangurslausri leit að heimilislækni. En nú stendur allt til bóta. Ég fékk mig skráða á lista ef einhver afpantaði tíma sinn hjá mínum góða lækni og sjá, ég fór til hennar í gærmorgun, snemma. Hún ákvað að slenið sem hefur ásótt mig skuli rannsakast með því að láta taka úr mér nokkrar flöskur af blóði og magaástandið skal metið með magaspeglun. Blóðprufurnar voru teknar í gær en speglunin verður gerð á mánudaginn. Það er ákveðinn léttir að eitthvað skuli vera að gerast og niðurstaðna fljótlega (vonandi) að vænta. Og þá kemur líka í ljós hvað þetta er mikið andlegt, hvað mikið líkamlegt og hvað mikið Zyban-inntöku að kenna.

Lyfið Zyban,sem ég hef tekið sem hjálparmeðal til að hætta reykingum, hefur haft sínar aukaverkanir. Þegar maður skoðar niðurstöður á doktor.is er listinn yfir mögulegar aukaverkanir ansi langur, liggur við að von sé á öllum skrattanum. Ég hugsaði mig mjög lengi um áður en ég ákvað dagsetningu til að hætta reykingunum og skoðaði listann yfir aukaverkanir Zybans vandlega. Ákvörðunin um að hætta með hjálp Zybans byggðist á eftirtöldu:

1. Úrskurði læknis frá 2005 um að byrjunareinkenna lungnaþembu væri orðið vart. Ég hafði margoft reynt að hætta en aldrei tekist að TAKA ÁKVÖRÐUNINA OG STANDA VIÐ HANA SMÁ STUND! Því það er bara það sem þarf, að byrja að hætta.

2. Endurteknum lungnasýkingum og lengri og lengri tíma til að ná mér upp úr þeim á síðasta ári. Þó tók steininn úr í nóvember, ég lagðist í rúmið þrisvar þann mánuðinn. Þá fór ég til heimilislæknis og bað um að verða send á Reykjalund en þar hafði ég heyrt að besti árangur á landinu hafi náðst við að gera fólk afhuga reykingum. Læknirinn minn brosti að vanþekkingu minni og sagði mér að aðeins þeir sem væru orðnir virkilega slæmir til heilsunnar kæmust þar að. En hún benti mér á Zybanið og sagði það hafa hjálpað mörgum. Það ku vera geðlyf, ætlað sem hjálp við þunglyndi, en reyndist ekki hafa aðrar verkanir á þunglyndissjúklinga en þær að þeir hættu smám saman allir að reykja. Ég fékk hjá henni lyfseðil ef ég ákvæði að nota það.

3. Ég hafði heyrt af reykinganámskeiðum (skrítið að kalla námskeið til að hætta reykingum "reykinganámskeið") Heilsustofnunarinnar í Hveragerði og kíkti á vefinn þeirra nfli.is. Þar kom í ljós að næstu námskeið hæfust sunnudaginn 25. febrúar 2007 og kostuðu 52.500 kr. Þar gæti maður treyst á leiðsögn í baráttunni ásamt því að vera á heilsufæði í heila viku og hafa allan aðgang að heilsurækt og mikla hvatningu til betra lífs eða nýs lífsstíls að minnsta kosti. Ég skráði mig strax í nóvember, greiddi staðfestingargjaldið og hóf hina andlegu aðlögun að þeirri ákvörðun að hætta þeim 39 ára gamla vana að reykja tóbak (2 pakka á dag síðustu 19 árin).

Ég ákvað að nota Zybanið og hóf inntöku þess þann 15. febrúar. Tók eina töflu á dag í 4 daga, eftir það 2 töflur á dag í 7 vikur, þá eina og hálfa töflu á dag í 1 viku og síðustu vikuna eina töflu annan hvern dag. Síðustu töfluna tók ég inn þann 19. apríl, eftir að hafa verið reyklaus í tvo mánuði.

Það erfiðasta hingað til var að koma sér inn á heilsuhælið, henda sígarettum og kveikjara og skella hurðinni. Ekkert síðan þá hefur í raun verið erfitt við að reykja ekki.

Fyrstu vikuna, í Hveragerði, leið mér oftast vel og var full af orku og löngun til að breyta sem flestu í mínu lífi, mataræði, hreyfingu og hugarfari. Reykingar voru liðin tíð. Það hvarflaði ekki að mér þar inni að ég myndi nokkurn tímann byrja á þeim andskota aftur. 

Fljótlega fór ég samt að finna fyrir ýmsum óþægindum, sumum vafalaust af "eðlilegum" orsökun en öðrum af Zyban-notkuninni. 

Til "eðlilegra" orsaka tel ég t.d.:

Hausverk, magaverk, doða, dofa, leiðindi, munnangur, svefnsýki, harðlífi, þunglyndi, svitaköst, kuldaköst og endalausa svengd.

Óþægindi sem skrifast á Zybanið tel ég vera, og takið eftir að þau eru oft og tíðum þau sömu og ég taldi upp hér að ofan:

Slen og sífeld syfja, svefntruflanir, munnþurrkur og almennur húðþurrkur,  þunglyndi, grátgirni, versnandi einbeiting, áhugaleysi, hita- og kuldaköst, kláða, fótaóeyrð (já, hún er til í læknisfræðilegum skilningi) brenglað bragðskyn og ákaflega laskað skopskyn.

Kosturinn við að taka þetta ekkisens geðlyf er aðeins einn:

Mann langar ekki rassgat til að reykja!

En stundum, þegar veröldin er dökkgrá og leiðindin liggja yfir eins og rakt bútasaumsteppi með þykku tróði, þá hvarflar það að mér að fara bara að reykja aftur, það geti varla verið verra að drepast úr lungnaþembu en þessum leiðindum og líkamlegu óþægindum. Þá sé ég fyrir mér lífið, kannski í 5 ár í viðbót í mesta lagi,  sitjandi í hjólastól með súrefniskút - og auðvitað byrja ég andskotann ekkert aftur. Þetta hlýtur að ganga yfir, bæði líkamlega og andlega.

Margir vinir mínir sem enn reykja hafa spurt hvernig mér hefur gengið, hér að ofan er svarið og ef það fælir einhvern frá því að nota þessa aðferð þá takið vel eftir:

Ég er enn reyklaus og það er það sem var lagt upp með !!! Cool

Kannski líður manni betur líkamlega og andlega með einhverri annarri aðferð - en þetta er sú sem ég kaus. Njótið vel! 


Konungsbók Arnaldar

Ég gerði hlé á lestri The Cold Moon til að lesa Konungsbók Arnaldar Indriðasonar. Í stuttu máli sagt þá hætti ég lestrinum eftir 60 blaðsíður. Bókin var svo ömurlega leiðinleg að ég hef sjaldan vitað annað eins. Ég hef lesið helling eftir Arnald og oft dottið í vægt þunglyndi eftir samveruna með Erlendi lögreglufulltrúa og hans fólki en leiðindin hafa aldrei verið slík og þvílík. Svo ég byrja bara aftur á bls. 318 á sögu þeirra Lyncoln Rhyme og Amalíu Sachs. Sjáum svo til.

Sambýlið við EYKT náði nýjum hæðum í dag þegar þeir byrjuðu að sprengja klöppina hér beint fyrir framan húsið mitt. Ég missti næstum fótanna á miðju stofugólfinu þegar sú fyrsta reið af. Allar myndir skakkar á veggjunum og hjartslátturinn var lengi að komast í samt horf.

Ég er búin að ákveða að drepast ekki í þetta sinn þó ég hafi ekki  enn náð sambandi við heimilslækinn og reyna að skrölta í vinnuna á morgun. Ef guð lofar.


Heilsan, svona almennt

Þegar heilsan er slæm er gott að geta farið til læknis. Ég er búin að reyna að ná sambandi við minn indæla heimilislækni vikum saman, en ég er farin að halda að líkurnar á því að fá tíma hjá honum séu álíka miklar og að vinna í lottóinu. Hvað er með þetta frábæra heilbrigðiskerfi hér á landi? Ég bjó í Bökkunum í Breiðholti frá 1990 til 2002 og fékk þar af leiðandi úthlutað heimilislækni í Mjóddinni. Man ekki eftir að það hafi verið neitt vesen að fá tíma þegar maður þurfti á því að halda, með sjálfa mig og slatta af krökkum sem veiktust eins og önnur börn á meðan ég bjó þar. Núna er það orðið þannig að þú þarft að byrja að hringja kl. 08.00 á föstudagsmorgnum til að panta tíma í vikunni á eftir. Síðasta föstudag komst ég að kl. 09.30 og var vinsamlegast bent á að það þýddi ekkert að hringja svona seint, allir tímar í næstu viku væru löngu fráteknir. Stefnir þetta ástand í að eina leiðin til að fá einhvern til að sinna heilsufarinu sé að verða svo veikur að kalla þurfi á sjúkrabíl og leggja þurfi mann inn á bráðamóttöku?

Ég tek það fram að ég er búin að fara á Læknavaktina. Þar er ekkert mál að fá viðtal við lækni og mér var ávísað á lyf sem entust í 2 vikur, ef ég væri ekki orðin góð eftir þann tíma átti ég að fara til heimilislæknis, hann er sá sem á að senda mann í nánari rannsóknir skv. kerfinu. Það gengur eins og að ofan segir.

Er kannski tími til kominn að biðja um nýjan heimilislækni, styttra frá núverandi heimili? Ég veit það ekki. Ég er alin upp á landsbyggðinni þar sem ég hafði sama heimilislækninn þau 26 ár sem ég bjó þar. Eftir á að hyggja var það ótrúlega þægilegt, aldrei þurfti að segja neina sögu oftar en einu sinni.

Líkamlegri vanheilsu má kenna um færsluna hér að ofan.

Andleg vanheilsa er í boði EYKTAR, verktakafyrirtækisins sem er búið að grafa allt í sundur fyrir framan húsið mitt við Höfðatún og heldur uppi linnulausum hávaða- og skítadreyfingarárásum á heimili mitt, hvort sem ég er í vinnu eða lasin heima. Mér var sagt að í helgarblöðunum hafi verið auglýst eftir verkamönnum til vinnu við byggingarsvæðið sem kallað er Höfðatorgsreiturinn - áætlaður vinnutími væri NÆSTU FIMM ÁRIN!!!!

Ég spyr, hafa borgarar þessa lands engan rétt! Má bara vaða svona yfir mann? 

Að lokum, ég átti átta vikna reykleysisafmæli í gær! Til hamingju Vibba mín, asskoti ertu dugleg! 

 


Eldur í miðborginni og skortur á fegurðarlöggum

Þessi eldsvoði er auðvitað ömurlegur! Fyrst heyrði ég að það væri Hressó sem var að brenna og sá fyrir mér að öll húsin upp að horninu á Lækjargötu myndu fuðra upp. Var viss um að eldveggir á Eymundsson og Iðuhúsinu myndu halda. Hresso er enn uppistandandi, sem betur fer. Auðvitað eru þessi eldgömlu hús mikill eldsmatur og varhugaverð miðað við þessi nýju, en mér finnst við verða að reyna að halda í og varðveita gömul timburhús, þau eru jú okkar menning og saga, svo langt sem það nær. Ekki gekk vel að varðveita torfkofana enda kannski í takt við lífræna endurvinnslu náttúrunnar. Af moldu ertu kominn og að moldu muntu aftur verða.

Það er með trega sem ég hugsa um fyrstu tískuvöruverslunina á Íslandi, Karnabæ, sem var þar sem Pravda var í morgun. Þangað fór ég með fermingarpeningana og keypti laxableika kápu (sem ég stytti upp í rass) og hvít stígvél með 7 cm. þykkum sólum og 15 cm. hælum. Í þessari múderingu og með Twiggyförðun var ég ótrúlega flott - að eigin áliti (mamma sagði ekki margt). 

Ég vona að uppbygging Austurstrætisins heppnist betur en margt sem verið er að gera við Laugaveginn akkúrat núna. Mér finnst vanta alla fegurð og samræmi í þessar nýju byggingar. Það er svo mikil synd að byggja svona ljótt eins og verið hefur undanfarin ár, það vantar fegurðarlöggu til starfa í borginni, svei mér þá!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband